Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Evrópsku smitsjúkdómastofnuninni og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO. Það þarf að hafa í huga í þessu sambandi að tölurnar ná aðeins til þeirra sem hafa greinst með veiruna. Sérfræðingar telja að þeir sem eru smitaðir en hafa ekki fengið greiningu séu líklega að minnsta kosti tvöfalt fleiri en þeir sem hafa greinst með smit.
Útbreiðsla HIV er ekki nýtt vandamál í Austur-Evrópu og Mið-Asíu en ógnvænleg þróun hefur orðið í málaflokknum síðustu 15 árin. Á tímum Sovétríkjanna var ekki mikið um að HIV-smit greindust en eftir fall þeirra og frá því um aldamótin fjölgaði tilfellunum mikið. Þá hófst ákveðin ungmennamenning þar sem ungt fólk notaði heróín frá Afganistan. Fólk skiptist á nálum og þannig breiddist veiran hratt út.
Verst er ástandið í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Kasakstan. Í Úkraínu er ástandið betra en þar hafa stjórnvöld blásið til sóknar í baráttunni við útbreiðslu veirunnar og það virðist vera að bera árangur.