Fram að lendingu InSight höfðu tæplega 60 prósent lendinga á Mars misheppnast. Árangur NASA var þó betri því átta af þeim níu geimförum sem stofnunin hafði sent til Mars höfðu lent heilu og höldnu. Í lendingarferlinu hafði InSight sex mínútur til að hægja á sér úr um 19.800 km/klst niður í um 8 km/klst. Allt var þetta tölvustýrt en tölva geimfarsins var forrituð til að sjá um þetta.
Nú er beðið eftir því að ryk, sem þyrlaðist upp við lendinguna, setjist svo geimfarið geti hafið störf. Það er sólarknúið og ætti því að hafa næga orku til að sinna þeim rannsóknum sem því er ætlað að sinna. Hjá NASA gátu menn þó ekki beðið eftir því að rykið settist alveg og létu InSight taka meðfylgjandi mynd skömmu eftir lendinguna. Á henni má sjá sjóndeildarhring Mars en ryk setur svip sinn á myndina.
Næsta verkefni NASA varðandi Mars er langt komið en 2020 á nýr Marsbíll að lenda á uppþornuðum hafsbotni á plánetunni til að leita að örverum, lifandi eða dauðum.