Ekki eru allir þingmenn repúblikana sáttir við þetta og krefjast þess að Sádi-Aröbum verði refsað. Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur komist að þeirri niðurstöður að það hafi verið sjálfur krónprins Sádi-Arabíu sem gaf fyrirmæli um morðið.
Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður, er að jafnaði dyggur stuðningsmaður Trump en í þessu máli er hann á öndverðum meiði við forsetann. Graham segist telja að í báðum deildum þingsins sé stuðningur við að beita Sádi-Arabíu „alvarlegum refsiaðgerðum“ og þar á meðal aðgerðum sem beinist beint gegn meðlimum konungsfjölskyldunnar.
Nokkrir þingmenn demókrata og repúblikana hafa sent Trump beiðni um að láta rannsaka morðið á Khashoggi á nýjan leik. Þeir vilja að rannsóknin beinist að hvort krónprinsinn beri ábyrgð á „morði, pyntingum eða öðrum alvarlegum brotum“ á mannréttindum. Samkvæmt Magnitsky-lögunum svokölluðu hefur forsetinn 120 daga til að bregðast við beiðninni að sögn BBC.