Erlendir fréttamiðlar segja að kafbáturinn hafi fundist á 800 metra dýpi við Valdesskagann í Patagonia sem er á suðurodda Suður-Ameríku. Kafbáturinn fannst með fjarstýrðum kafbát frá bandaríska leitarskipinu Ocean Infinity sem var fengið til leitar af argentínska flotanum.
Það var í morgun sem tilkynnt var að kafbáturinn væri fundinn, aðeins tveimur dögum eftir að ættingjar áhafnar kafbátsins komu saman við minningarathöfn um harmleikinn fyrir ári síðan.
Það var þann 15. nóvember á síðasta ári sem tilkynning barst frá kafbátnum um að hann ætti í vandræðum með rafhlöður. Stjórnandi hans fékk fyrirmæli um að sigla til hafnar í Mar de Plata en þá var kafbáturinn í um 430 km fjarlægð frá landi. Eftir það heyrðist ekkert frá kafbátnum. Tveimur dögum síðar skýrði argentínski flotinn frá því að hann næði ekki sambandi við kafbátinn.
Um borð var 44 manna áhöfn. Umfangsmikil leit hófst og fylgdist heimsbyggðin grannt með henni. Mörg ríki sendu flugvélar og skip til aðstoðar við leitina en hún beindist að suðvesturhluta Atlantshafsins.
Samkvæmt upplýsingum frá argentíska flotanum nægði súrefnið í bátnum í sjö sólarhring þegar hann var í kafi. Eftir sjö daga leit var skýrt frá því að mikil sprenging hefði heyrst í sjónum, sama dag og kafbáturinn hvarf, á þeim stað þar sem síðast var vitað um kafbátinn.
Þann 30. nóvember hætti argentínski flotinn leit að kafbátnum. Það var síðan í dag sem tilkynnt var að hann væri fundinn.