Nú þurfa skipuleggjendurnir að hugsa sig vel um áður en þeir spyrja starfsfólkið hvort það sé með fæðuofnæmi eða sé grænmetisætur. Slíkar upplýsingar teljast viðkvæmar persónuupplýsingar og því fer það gegn reglum ESB að spyrja spurninga sem þessara.
Ekstra Bladet skýrir frá þessu. Málið var til skoðun hjá samtökum danskra iðnfyrirtækja í kjölfar spurningar frá meðlimi í samtökunum. Í nýlegu fréttabréfi samtakanna var fjallað um málið og fyrirtækjum leiðbeint um hvernig þau eiga að bera sig að. Samkvæmt því sem fram kemur eru upplýsingar um fæðuóþol, matarvenjur og trú fólks viðkvæmar persónuupplýsingar sem vinnuveitendur mega að öllu jöfnu ekki meðhöndla.
Í fréttabréfinu kemur fram að hins vegar megi spyrja starfsfólk hvort það sé með einhverjar sérþarfir sem þarf að taka tillit til á jólahlaðborðinu og hvort það séu einhverjir sem borða ekki ákveðnar kjöt- eða fisktegundir. Hins vegar er algjörlega óheimilt að spyrja um ofnæmi eða fæðuval byggt á trú.
Ekki má síðan gleyma að þegar jólahlaðborðið er afstaðið verður að eyða þeim upplýsingum sem var aflað við undirbúning þess, þær má ekki geyma til næsta árs.