Gastgivar heilsaði þeim, náði sér í sjónauka og fylgdist síðan með þeim sigla að næstu eyju sem er í eigu dularfulls rússnesks kaupsýslumanns sem Gastgivar hefur aldrei séð eða hitt.
Eyjan heitir Sakkiluoto og er í eigu Pavel Melnikov, 54 ára, frá St Pétursborg. Eyjan er vel vöktuð með eftirlitsmyndavélum, hreyfiskynjurum og skiltum sem segja að óviðkomandi sé óheimilt að fara um eyjuna.
Á eyjunni eru níu bryggjur, þyrlupallur, sundlaug falin undir feluneti og nægilega mörg hús, öll með gervihnattadiskum, til að geta hýst lítinn her. Erlendir miðlar á borð við New York Times og Independet hafa fjallað um málið.
Málið er allt hið undarlegasta því þennan sama dag gerði lögreglan áhlaup á 16 aðrar eyjur á þessu svæði. Allt hefur þetta orðið til að koma af stað orðrómi um að hinn raunverulegi eigandi Sakkiluoto sé rússneski herinn. Finnskir embættismenn segja að áhlaupið hafi verið gert til að takast á við peningaþvætti og skatta- og lífeyrissvik.
En þessu trúa fáir þar sem aðgerð lögreglunnar, sem naut aðstoðar hersins, beindist að Sakkiluoto og 16 öðrum eignum í vesturhluta Finnlands sem tengjast Rússlandi á einn eða annan hátt. Þyrlur og eftirlitsflugvélar voru notaðar við aðgerðina og loftrýminu yfir svæðinu var lokað á meðan á henni stóð.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, kom í heimsókn til Helsinki nokkrum dögum síðar. Hann var þá spurður á fréttamannafundi hvort Rússar hefðu verið að útbúa lendingarsvæði fyrir herþyrlur á finnskum eyjum.
„Ég veit ekki í hvaða sjúka huga svona hugmyndir koma fram. Þetta er vænisýki.“
Sagði hann.
En vandinn fyrir Rússa er að fáir trúa þeim þessa dagana. Rússnesk stjórnvöld hafa neitað svo mörgu undanfarið, hlutum sem þykja borðliggjandi eins og morðtilræðinu við Skripal-feðginin í mars, að mörgum finnst ekkert of ótrúlegt þegar Rússar eiga í hlut.
Margar kenningar eru á lofti um málið og ein sú vinsælasta á samfélagsmiðlum er að eyjarnar, sem eru nærri finnskum herstöðvum og mikilvægum siglingaleiðum í Eystrasalti, hafi gegnt hlutverki í leynilegri aðgerð GU sem er leyniþjónusta rússneska hersins.
Gastgivar er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að eitthvað undarlegt hafi verið á seyði á nágranneyju hans. Þar hafi framkvæmdir staðið yfir árum saman en enginn hafi vitað hvað var verið að gera.
Finnska leyniþjónustan hefur lengi varað við að eyjar, keyptar af Rússum, geti verið notaðar í hernaðarlegum tilgangi.