„Viljið þið vera svo væn að laga garðinn ykkar. Þetta er hörmung. Takk.“ Svona voru skilaboðin á miða sem hafði verið hengdur á póstkassa ástralskrar konu, Ellen að nafni, þegar hún kom heim til sín dag einn.
Þetta fór vægast sagt illa í hana þar sem aðstæðurnar á heimilinu höfðu verið erfiðar mánuðina á undan.
„Ég varð brjáluð þegar ég las miðann.“
Sagði Ellen í samtali við Kikspot.
Eiginmaður hennar fótbrotnaði nokkru áður og þurftu læknar að byggja ökkla hans upp á nýjan leik. Aðgerðin var gerð sex dögum áður en Ellen fór í keisaraskurð þar sem yngsta barn þeirra hjóna kom í heiminn. Nýja barnið svaf lítið sem ekkert og hélt fjölskyldunni vakandi nær öllum stundum. Þegar hún las miðann á póstkassanum sauð á henni.
Hún æddi inn í húsið og grýtti seðlinum í eiginmann sinn og byrjaði síðan að skipuleggja snilldarlega hefnd. Hún ætlaði að svara nágrannanum samstundið og fór að leita að blaði og penna. En penninn virkaði ekki svo hún settist við tölvuna sína og fór að skrifa. Á meðan hún skrifaði hinar verstu formælingar og ljótustu orðin, í orðaforða hennar, fór henni að renna reiðin og hún ákvað að breyta svarinu.
Hún ákvað að hafa húmorinn að leiðarljósi og gera þekkingarleysi nágrannans að skotspóni sínum og sýna þannig fram á að það á ekki að dæma annað fólk þegar maður veit ekki hvað hefur gerst hjá því.
„Kæri huglausi nágranni, ef þú vilt koma og gæta tveggja barna okkar eða sjá um 50 klukkustunda vinnuviku eiginmanns míns þá munum við með gleði eyða svolítið meiri tíma í garðinum. Aðeins of grasivaxinn garðurinn okkar og illgresið, sem sprettur upp, var líklegast of mikið til að þú gætir haldið þetta út lengur. Garðurinn er næstur á verkefnalista okkar en það líða örugglega nokkrir dagar þar til við komumst í málið.“
Hún hefur ekki enn heyrt frá nágrannanum.