Danskir fjölmiðlar fjalla að vonum mikið um andlát Larsen í dag enda maðurinn þjóðargersemi eins og margir fjölmiðlar segja. Hann fæddist í Kaupmannahöfn þann 23. október 1945 og var skírður Kim Melius Flyvholm Larsen. Hann var menntaður grunnskólakennari en sinnti því starfi lítið. Hann bjó í Óðinsvéum frá 1995. Þar sást oft til hans á reiðhjóli sínu og í heimsóknum á öldurhúsum. Hann var lítið fyrir athyglina og kaus rólegt líf utan tónlistarsviðsins og harðneitaði að ræða einkalíf sitt. Hann lætur eftir sig eiginkonu og sex börn.
Larsen kom fram á sjónarsviðið í byrjun áttunda áratugarins með hljómsveitinni Gasolin, sem naut mikilla vinsælda í Danmörku, þegar hún sendi frá sér plötuna Gasolin. Frá þeim tíma hefur hann óumdeilanlega verið einn vinsælasti og þekktasti tónlistarmaður Danmerkur. Lög eins og Rabalderstræde og Hva´ gør vi nu lille du komu Gasolin á kortið sem einni vinsælustu hljómsveit Dana. Hljómsveitin leystist upp 1978 eftir að hafa gefið út átta danskar hljómplötur og fjórar á ensku. Þá hófst sólóferill Larsen en það var síst til að draga úr vinsældum hans eða skemma feril hans. Undanfarin ár spilaði hann mest með hljómsveitinni Kjukken. Á ferlinum seldi hann rúmlega fimm milljónir hljómplatna og geisladiska.
Óhætt er að segja að Larsen sé einn vinsælasti listamaður Danmerkur fyrr og síðar. Hann vildi þó sjálfur ekki kalla sig listamann, sagðist vera tónlistarmaður sem ferðaðist um og spilaði fyrir fólk.
Þekktasta plata hans er líklega Midt om natten. Samnefnd kvikmynd var framleidd 1984 og lék Larsen aðalhlutverkið. Myndin fékk Robert verðlaunin 1985 fyrir bestu kvikmyndatónlistina. Fyrsta sóloplata hans var Værsgo en auk hennar gaf hann út sex sólóplötur til viðbótar. Larsen var þekktur fyrir góða textagerð, grípandi texta sem oft voru hörð ádeila á samfélagið, stjórnmálin og ástandið hverju sinni. Þegar hann opnaði munninn, hlustaði fólk. Textar hans voru beinskeyttir og fólk hlustaði þegar hann kom fram í sjónvarpsviðtölum. Grunnskólakennari sem reykt, bölvaði og drakk bjór í sjónvarpinu.
Óhætt er að segja að tónlist hans hafi sameinað kynslóðir enda eru vinsældir hans miklar og það hefur mátt greina á viðbrögðum Dana eftir að fréttist af andláti hans í morgun. Segja má að nánast allar kynslóðir þekki lög á borð við Tarzan Mama Mia, De smukke unge mennesker, Midt om natten og mörg önnur.
Mette Bock, menningarmálaráðherra, sagði í morgun að tónlist Larsen muni áfram lifa með þjóðinni og það sé hún þakklát fyrir.
Mai Marcado, félagsmálaráðherra, lofsamaði Larsen einnig og þakkaði honum fyrir frábæra tónlist.
Margir hafa tekið í sama streng á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum í morgun.
Það er kannski við hæfi að ljúka þessari umfjöllun á textabroti eftir Larsen úr laginu Om Lidt (bliver her stille/er vi borte en það á vel við um brotthvarf þessar dönsku þjóðargersemar.
Om lidt bli’r her stille
Om lidt er det forbi
Fik du set det du ville
Fik du hørt din melodi
Om lidt, om lidt
Er vi borte
Vi ses måske igen
Þá minnast fjölmargir Íslendingar Larsen með hlý hug, þar á meðal Bubbi Morthens og Björgvin Halldórsson:
Grímur Atlason tónleikahaldari minnist Larsen einnig: