BBC News skýrir frá þessu.
Fyrir rétti hefur komið fram að Dawn hafi „virst alveg sama“ á meðan sjúkraflutningamenn reyndu að lífga son hennar við. Hún sagði einnig við neyðarvörð að það væri „dásamlegt“ að hann vaknaði ekki því þá gæti hún sloppið við að mæta til vinnu.
Sjúkraflutningamenn hafa skýrt frá því fyrir rétti að hvorki móðir Jordan né amma hans hafi sýnt neinar tilfinningar þegar þeir komu á vettvang. Amman hafi setið og horft á sjónvarp en mamma hans hafi setið róleg í eldhúsinu.
Í upptöku af símtali til neyðarlínunnar, sem var spilað fyrir dóminn, heyrist Dawn segja:
„Ég neyðist til að tilkynna í vinnuna að ég komist ekki. Það er dásamlegt.“
Þegar lögreglan kom á vettvang og hóf rannsókn málsins fundu lögreglumenn lík lítils drengs í bakpoka í herberginu þar sem Jordan lést. Þetta var sonur Dawn. Réttarmeinafræðingum hefur ekki tekist að skera úr um hvort drengurinn hafi fæðst andvana eða lifandi.
Lögreglumenn komu fyrir dóminn fyrir helgi og sögðu að Dawn hefði spurt þá hvað útfarir kosta. Hún sagði þeim einnig að hún hefði ekki vitað að hún væri barnshafandi fyrr en hún eignaðist drenginn.
„Af ástæðum, sem við munum örugglega aldrei skilja, var Jordan skilinn eftir til að deyja, rotna í hel, af þeim sem stóðu honum næst.“
Sagði Nicholas Lumley, saksóknari, fyrir rétti. Hann sagði að Jordan hafi að mestu lifað eðlilegu lífi þar til hann varð 16 ára en þá var hann tekinn úr skóla til að móðir hans gæti kennt honum heima.
Fyrir rétti hefur komið fram að Jordan hafi glímt við þroskavandamál og hegðunarvanda allt frá því að hann var lítill. Í skýrslu frá leikskóla hans frá 2002 kemur fram hann hafi verið vanræktur hvað varðar grunnþarfir. Hann hafi ekki fengið þjálfun í að nota klósett og að tennur hans hafi verið svartar, málskilningur hafi verið lítill og sokkum hafi verið troðið fremst í skó hans því þeir hafi verið of stórir.