fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Pressan

Stórtíðindi úr dönskum stjórnmálum – Jafnaðarmenn losa sig við helsta stuðningsflokk sinn og boða miklar breytingar

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 5. júní 2018 06:35

Danska þinghúsið í Kristjánsborgarhöll.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir 25 ára náið samstarf danskra jafnaðarmanna og Radikale Venstre er komið að leiðarlokum. Þetta tilkynnti Mette Frederiksen, formaður jafnaðarmanna, í gærkvöldi og kom þetta útspil hennar mjög á óvart. Hún sagði að jafnaðarmenn stefni á að mynda minnihlutastjórn að næstu kosningum loknum án aðkomu annarra flokka að stjórninni en að sjálfsögðu þarf stjórnin þá að treysta á stuðning annarra flokka gegn vantrausti.

Radikale Venstre er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem hefur oft verið í lykilstöðu á þinginu. Á undanförnum misserum hefur hvað eftir annað komið í ljós að Radikale og jafnaðarmenn eru ekki samstíga í málefnum útlendinga auk ýmissa annarra mála en útlendingamálin eru mest áberandi. Jafnaðarmenn hafa að undanförnu hallað sér æ meira að Danska þjóðarflokknum, sem er hægrisinnaður þjóðernisflokkur, sérstaklega hvað varðar útlendingamál en þar eru flokkarnir ansi samstíga. Frederiksen á gott samstarf við Kristian Thulesen Dahl, formann Danska þjóðarflokksins, og virðist það samstarf hafa aukist og orðið sterkara eftir því sem hefur liðið á kjörtímabilið en kosið verður til þings í Danmörku á næsta ári að öllu óbreyttu.

Rætt var við Frederiksen í fréttum Danska ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Þar sagði hún að stefnan í útlendingamálum væri aðalástæðan fyrir því að hún hafi ákveðið að treysta ekki lengur á Radikale þegar kemur að myndun ríkisstjórnar.

„Við viljum gera Danmörku enn umhverfisvænni og réttlátari fyrir alla. En við stöndum líka fast á að hér verði rekin hörð stefna í málefnum útlendinga. Ef maður hefur þetta þrennt að leiðarljósi getur maður starfað með mörgum stjórnmálaflokkum. En þetta getum við ekki gert allt með einum flokki.“

Sagði hún og bætti við að jafnaðarmenn vilji einnig brjóta upp þá „blokkapólitík“ sem hefur einkennt dönsk stjórnmál undanfarna áratugi. Þar eru um að ræða bláa blokk og rauða blokk. Borgaralegu flokkarnir tilheyra bláu blokkinni en félagshyggjuflokkarnir þeirri rauðu. Frederiksen sagði að jafnaðarmenn vilji taka upp ný vinnubrögð á þingi þar sem breið samstaða náist um málin þvert á flokka og yfir hina pólitísku miðju. Þar geti allir flokkar, sem eru reiðubúnir til að taka ábyrgð, komið að málum.

Tekur mikla pólitíska áhættu

Það er almennt mat stjórnmálafræðinga að Frederiksen taki mikla áhættu með þessu útspili sem kom þó kannski ekki alveg á óvart þar sem jafnaðarmenn og Radikale hafa færst lengra frá hvor öðrum síðan 2015 og þá sérstaklega í málefnum útlendinga eins og áður var nefnt.

Útlendingamálin verða að öllu óbreyttu stærsta kosningamálið á næsta ári og því vilja flokkarnir gjarnan sýna stöðu sína á því sviði. Almennt virðast Danir fylgjandi strangri innflytjendalöggjöf og það er einmitt í þá áttina sem jafnaðarmenn hafa verið að færa sig. Radikale eru hins vegar talsmenn frjálslyndari löggjafar á því sviði.

Frederiksen sagði að jafnaðarmenn hafi lagað stefnu sína í útlendingamálum að vilja Dana og þar muni flokkurinn vera áfram. Hún sagðist ekki óttast að félagshyggjuflokkarnir vilji ekki styðja hana í embætti forsætisráðherra vegna stefnu jafnaðarmanna í útlendingamálum og samstarfs þeirra við Danska þjóðarflokkinn og Venstre (sem er stærsti borgaralegi flokkurinn).

„Fyrir það fyrsta eiga allir að hafa áhrif á hin pólitísku mál. Hvað varðar strangar reglur í málefnum útlendinga eiga jafnaðarmenn samleið með Dönum og við munum áfram verða samferða þeim.“

Frederiksen talaði einnig um að stefna núverandi ríkisstjórnar, undir forystu Lars Løkke Rasmussen formanns Venstre, í umhverfismálum sé ekki að ganga upp og breytinga sé þörf, það þurfi að gera Danmörku umhverfisvænni. Einnig nefndi hún að gera þurfi samfélagið réttlátara og rétta hlut þeirra sem minna mega sín. Þetta rímar vel við stefnu Danska þjóðarflokksins sem þrátt fyrir að vera hægri flokkur vill standa vörð um velferðarkerfið og hefur beitt sér í slíkum málum. Flokkurinn á erfitt með að víkja frá þessari stefnu sinni þar sem hann sækir megnið af fylgi sínu til kjósenda sem má staðsetja í neðri lögum samfélagsins, fólk sem á erfitt uppdráttar efnahagslega og jafnvel félagslega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hvað gerist í líkamanum þegar maður stundar vetrarböð?

Hvað gerist í líkamanum þegar maður stundar vetrarböð?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þetta þarf ekki að taka margar klukkustundir – Svona brennir þú flestum hitaeiningum að sögn prófessors

Þetta þarf ekki að taka margar klukkustundir – Svona brennir þú flestum hitaeiningum að sögn prófessors
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ætlaði að heilla unnustuna – Var étinn af ljónum

Ætlaði að heilla unnustuna – Var étinn af ljónum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ryanair lætur hart mæta hörðu – Lögsækir farþega

Ryanair lætur hart mæta hörðu – Lögsækir farþega