fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Neytendur

Þetta er réttur neytenda í heimsfaraldri COVID-19

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 22. mars 2020 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við lifum á fordæmalausum tímum. Þessa setningu höfum við heyrt trekk í trekk undanfarnar vikur. Hversdagsleikinn hefur verið hrifsaður úr höndum okkar og sjá margir fram á erfiða tíma sökum veikinda, sóttkvíar, atvinnu- og tekjumissis. Neytendur eru því margir komnir í strembna stöðu. Hér eru nokkur atriði sem íslenskir neytendur geta haft í huga á þessum fordæmalausu tímum, ekki er um tæmandi upptalningu að ræða og eru lesendur hvattir til að sækja sér upplýsingar á vefjum yfirvalda, stofnana, stéttarfélaga og tryggingafélaga svo dæmi séu tekin.

Bankar bjóða greiðslufrest

Þrír stærstu bankar landsins hafa ákveðið að bregðast við ástandinu og bjóða viðskiptavinum sínum upp á lausnir til að mæta mögulegum greiðsluvanda sökum kórónuveirufaraldursins, meðal annars vegna atvinnumissis eða veikinda.

Landsbankinn býður upp á frestun afborgana á íbúðalánum. Frestunin felur í sér að ekkert er greitt af láninu í allt að sex mánuði, hvorki afborganir né vextir. Kostirnir við þennan möguleika eru að viðskiptavinur hefur svigrúm til að standa af sér fjárhagsleg áföll en ókosturinn er að lánið heldur áfram að safna vöxtum eftir sem áður sem bætast við höfuðstólinn. Heildarlánstími helst svo óbreyttur svo búast má við að afborganir verði eitthvað hærri þegar greiðslur hefjast að nýju. Eins er hægt að sækja um greiðsludreifingu kreditkorta, hækkun yfirdráttar, og Aukalán til fimm ára í gegnum netapp bankans.

Hægt er að sækja um frestun greiðslna íbúðalána í gegnum landsbankinn.is. Til að fá úrræðið þarf að gera viðauka við lánið og þinglýsa og kostar það 10.000 krónur auk 2.500 króna þinglýsingargjalds.

Íslandsbanki býður upp á frystingu útlána tímabundið. Frysting þessi er í reynd sambærileg greiðslufresti og heldur lánið eftir sem áður áfram að safna vöxtum. Eins er viðskiptavinum bent á möguleikann að endurfjármagna lán eða gera skilmálabreytingu þar sem lánstími er lengdur til að lækka greiðslubyrði. Einnig er boðið upp á að dreifa kortagreiðslum, hækka yfirdráttarheimild og óska eftir tímabundnu láni í gegnum app bankans. Hægt er að bóka símtal við ráðgjafa í gegnum islandsbanki.is.

Arion banki býður einstaklingum að gera hlé á afborgunum í allt að þrjá mánuði. Þá er lánið fryst og ekkert greitt af því í þrjá mánuði. Afborganir og vextir leggjast þá á höfuðstól lánsins til hækkunar og þegar afborganir hefjast að nýju verða þær því hærri en áður. Einnig er boðið upp á að dreifa kortagreiðslum, hækka yfirdráttarheimild og óska eftir tímabundnu láni í gegnum app bankans. Til að sækja um frestunina er hægt að hafa samband við adstod@arionbanki.is.

Hvað með pakkaferðina? 

Neytendastofa hefur gefið út þær upplýsingar að þeir sem eigi pantaðar svokallaðar pakkaferðir eigi rétt á að afpanta ferð ef um óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður sem hafa áhrif á framkvæmd ferðarinnar er að ræða. Dæmi um slíkar aðstæður séu til dæmis sjúkdómar eða farsóttir.

Neytendasamtökin hafa gefið út að margir hafi leitað til þeirra þar sem ferðaskrifstofur hafi neitað að endurgreiða ferðir að fullu í tilfelli afbókana, þó um sé að ræða ferðir til skilgreinda áhættusvæða vegna COVID-19. Neytendasamtökin taka fram að ferðalangar eigi rétt á að afpanta pakkaferðir áður en þær hefjast, gegn greiðslu þóknunar sem oft er staðfestingargjaldið. Hins vegar hefur ferðaskrifstofa ekki rétt á þessari þóknun ef um óvenjulegar aðstæður er að ræða, en samtökin telja ljóst að það eigi við um stöðuna í dag, sérstaklega þegar um er að ræða fyrirhugaðar ferðir til áhættusvæða. Endurgreiðsla skal þá berast innan 14 daga. Neytendasamtökin hvetja ferðalanga til að hafa samskipti sín við ferðaskrifstofu skrifleg til að draga úr hættu á misskilningi. Ekki er ljóst hversu langan fyrirvara ferðalangar þurfa að gefa, en samtökin hafa óskað eftir áliti Neytendastofu á því álitaefni.

Eins hvetja samtökin ferðalanga til að varast inneignarnótur. Lögin tali um endurgreiðslu ferðakostnaðar og hætta sé á að inneignarnótur verði verðlausar, fari allt á versta veg.

Flugferðir 

Framangreint gildir bara um pakkaferðir. Önnur sjónarmið eiga við þegar um flugferðir er að ræða. Ef flugfélag aflýsir flugi sökum ástandsins þá á farþegi rétt á fullri endurgreiðslu, en ekki skaðabótum. Ef farþegi hættir við flugið sjálfur þá myndast ekki bótaréttur og ekki réttur til endurgreiðslu farmiða fyrir utan skatta og gjöld. Þá gæti verið hægt að leita til trygginga- eða kortafyrirtækja en í skilmálum þeirra má stundum finna ákvæði um stöðuna þegar komið er í veg fyrir ferð vegna hafta yfirvalda. Því eru lesendur hvattir til að kynna sér skilmála hjá tryggingafyrirtæki sínu eða kortafyrirtækjum og kanna stöðu sína.

Hvað ef ég kemst ekki heim? 

Ef þú ert staddur í pakkaferð, en kemst ekki heim sökum hafta og banna þá ber þjónustuveitanda þínum að aðstoða þig. Meðal annars með því að koma til þín upplýsingum um heilbrigðisþjónustu og breytingu á ferðaplönum. Ferðaskrifstofan á að sjá þér fyrir gistingu í að hámarki þrjár nætur, að þeim liðnum gætir þú sjálfur þurft að standa undir kostnaði.

Hvað með vinnuna og launagreiðslur? 

Ástandið þýðir óumflýjanlega að margir atvinnurekendur verða fyrir miklum fjárhagslegum skelli og í slíkri stöðu vofir hættan á uppsögnum yfir. Ríkisstjórnin hefur því lagt fram frumvarp sem miðar að því að fólk fái rýmri heimildir til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli til að skapa hvata til þess að atvinnurekendur grípi síður til uppsagna og frekar til þess að minnka starfshlutfall. Þá vonandi tímabundið.

Einstaklingar í sóttkví og einangrun hafa margir áhyggjur af afkomu sinni. Veikir einstaklingar hafa rétt á að klára veikindadaga sína hjá vinnuveitanda og leita svo til sjúkrasjóða stéttarfélaga. Þeir sem sitja heima með veik börn geta að sama skapi nýtt veikindadaga vegna barna hjá vinnuveitanda og síðan skapast réttur í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.

Einstaklingar í sóttkví eiga að fá greitt frá atvinnurekanda samkvæmt nýju lagafrumvarpi Alþingis. Atvinnurekandi getur svo sótt um aðstoð stjórnvalda til að standa straum af þessum greiðslum. Þetta er tímabundið úrræði sem miðast við sóttkví frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Sóttkví á ekki að ganga á veikindarétt launamanns.

Foreldrar barna í sóttkví eiga rétt til fjarvista án launa en eiga að geta nýtt ótekið orlof. Stéttarfélög vinna nú að úrlausnum í samstarfi við stjórnvöld til að tryggja að launamenn verði ekki fyrir tekjumissi í þessum aðstæðum.

Ef atvinnurekandi lokar vinnustað tímabundið vegna faraldursins þá falla launagreiðslur ekki niður. Eins ef atvinnurekandi sjálfur óskar eftir því að launamaður sæti sóttkví.

Annað gildir þó þegar launamaður tekur sjálfur ákvörðun um sóttkví, þá án fyrirmæla yfirvalda. Slíkt er þá gert á eigin áhættu og eigin kostnað.

Kvíði getur fallið undir veikindahugtakið, svo þeir sem treysta sér ekki til vinnu sökum kvíða geta átt rétt til launa í veikindum en þurfa þá að afla sér læknisfræðilegs mats.

Foreldrar barna sem verða fyrir skerðingu á skólastarfi eiga ekki rétt til launa. Þá þarf að nýta orlofsrétt eða óska eftir launalausu leyfi, nema viðkomandi geti sinnt vinnu sinni heima.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
Neytendur
26.01.2020

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
20.06.2019

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“
EyjanNeytendur
19.04.2019

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda