fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Neytendur

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. janúar 2020 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atvinnuleysi hefur aukist í landinu og margir eru í atvinnuleit. Þegar sótt hefur verið um vinnu eru einhverjir heppnir útvaldir sem fá tækifæri til að vinna vinnuveitanda á sitt band í atvinnuviðtali. Þá eru góð ráð dýr. Hvað á maður að gera í slíkum viðtölum? Hvað má segja, hvað má ekki segja? Eru til rétt og röng svör við spurningum sem þar eru lagðar fyrir mann?

Ekki vera of hversdagsleg/ur eða of fín/n í tauinu

Það er þekktur frasi að maður eigi að klæða sig fyrir það starf sem maður vonast til að fá. Í starfsviðtali er mikilvægt að koma vel fyrir og því mega náttfötin eða „juicy“-jógabuxurnar vera eftir heima. Að sama skapi er líka hægt að vera of uppstrílaður og því ráð að láta síðkjólinn og kjólfötin eiga sig. Best er að mæta í snyrtilegum hreinum fatnaði, með hreinar neglur, snyrtilegt hár og í viðeigandi skófatnaði. Hafðu þó einnig á bak við eyrað að fatnaður sé þægilegur því stífur, óþægilegur fatnaður, sem þig jafnvel klæjar undan, getur ýtt undir stress sem svo getur bitnað á frammistöðu þinni í viðtalinu.

Ekki mæta óundirbúin/n

Þú ert kannski búinn að vera lengi að leita að starfi, sótt víða um og farið í mörg atvinnuviðtöl. Gefðu þér þó tíma fyrir hvert viðtal og kynntu þér starfsemi vinnuveitandans. Upplýsingar má oft finna á vefsíðu fyrirtækis/stofnunar eða Facebook-síðu. Sum stærri fyrirtæki eru með skýra starfsmannastefnu sem er aðgengileg á netinu og jafnvel einhver kjörorð í starfseminni sem gott er að hafa hugföst. Það sýnir líka áhuga þinn á starfinu ef þú ert vel undirbúinn.

Ekki vera á síðustu stundu

Það ætti varla að þurfa að taka það fram, en ekki mæta of seint eða á hlaupum á síðustu mínútu. Það lítur illa út í viðtalinu og gefur til kynna óstundvísi. Það getur einnig valdið því að þú sitjir móður og másandi, jafnvel löðursveittur í upphafi viðtals og það er sjaldnast ávísun á gott gengi. Ekki mæta ókristilega snemma heldur. Ef viðtalið er klukkan 14.00 þá er ekki rétt að vera mættur 12.00, það ber með sér fnyk af örvæntingu sem best er að fela fyrir vinnuveitandanum sé hún til staðar.

Ekki beita rangri líkamstjáningu

Þótt svo þú hafir svörin á hreinu, góða ferilskrá og sért snyrtilegur til fara þá getur líkamstjáning þín haft af þér starfið sem þú ert að sækjast eftir. Reyndu því eftir fremsta megni að fá líkama þinn til að vinna með þér. Ekki koma þér of vel fyrir í stólnum með fætur uppi á borði. Ekki láta höfuðið síga ofan í axlirnar og ekki forðast augnsamband. Passaðu handabandið þegar þú mætir í viðtalið. Þú átt ekki að taka of fast um hönd vinnuveitandans, en ekki heldur of laust. Sittu beinn í baki og hallaðu þér lítillega fram til að gefa til kynna áhuga á því sem á sér stað í viðtalinu. Ekki krossleggja hendur eða taka yfirhöfn/tösku/veski í fangið – slíkt getur gefið til kynna að þú sért í vörn. Ekki naga neglurnar, stappa fótum, hamra með fingrum á borðinu eða stólnum, því það gefur til kynna óþolinmæði eða taugaveiklun.

Ekki gefa þeim ævisögu þína í smáatriðum

„Segðu mér aðeins frá sjálfu þér“ er algeng spurning í atvinnuviðtali. Þarna er þó ekki verið að biðja um sem hefst á: „Já, ég fæddist á Landspítalanum þann 23. júní, laust fyrir klukkan þrjú að degi til. Það var rigning“. Þarna vill vinnuveitandinn vita hvernig þú teljir þig henta í starfið, en ekki smáatriði úr einkalífi þínu. Þú getur þó deilt smá upplýsingum um persónuleika þinn, áhugamál, menntun og markmið, en einbeittu þér að því að tala um í hvaða stöðu þú ert í dag, hverju þú ert að leita að og hvaða eiginleikum þú býrð yfir sem henta starfinu sem þú ert að sækja um.

Ekki lasta fyrrverandi vinnuveitendur

Neikvæðni og slúður er ekki líklegt til vinsælda í starfsviðtali. Þó svo fyrrverandi eða núverandi yfirmaður þinn sé algjör þöngulhaus þá er betra að láta það ósagt. Láttu frekar eins og ástæða þess að þú fórst eða sért að huga að förum sé heldur löngun í ný og spennandi tækifæri. Haltu samræðum á jákvæðu nótunum og forðastu neikvæðni.

Ekki þykjast vera fullkomin/n

Í flestum viðtölum er spurt um helstu veikleika þína. Margir gætu haldið að þarna væri til eitt rétt svar: Ég hef enga veikleika. Það er ekki svo. Öll höfum við einhverja veikleika svo vinnuveitandi mun strax vita að þarna er sannleikurinn fegraður töluvert. Þú skalt samt ekki fara í ítarlega upptalningu á öllum þínum brestum. Frekar viltu svara spurningunni og greina frá veikleika, en settu þá fram með jákvæðum hætti. Dæmi um þetta væri: „Ég get verið með töluverða fullkomnunaráráttu. Þetta getur stundum valdið því að verkefni taka lengri tíma en þau ættu að gera en ég veit af þessum veikleika og hef tileinkað mér aðferðir svo ég geti skilað af mér verkefnum sem ég er ánægður með án þess að það komi niður á afköstum.“ Annað dæmi væri: „Ég á stundum erfitt með að biðja um hjálp. Ég hef tileinkað mér sjálfstæði í vinnubrögðum og finnst ég vinna best þannig. Ég er samt að vinna í því.“

Ekki sleppa því að spyrja

Flestum viðtölum lýkur með því að vinnuveitandi spyr hvort þú viljir spyrja hann að einhverju. Ekki svara nei, það getur gefið þá mynd að þú hafir ekki það mikinn áhuga á vinnustaðnum. Vertu tilbúinn með einhverja spurningu/spurningar. Dæmi um spurningar sem þú gætir spurt eru: „Geturðu útskýrt fyrir mér hvernig dagurinn í þessu starfi gengur fyrir sig? Hvað finnst þér mesti kosturinn við vinnustaðinn?“

Spurningar sem þú skalt forðast eru spurningar á borð við: „Eru starfsmenn fíkniefnaprófaðir reglulega? Var frír bjór á síðustu starfsmannagleðinni? Er maður áminntur áður en maður er rekinn.“

Ekki gleyma að þakka fyrir þig/minna á þig

Eftir hvert viðtal þá er gott að senda vinnuveitanda línu á sama tölvupóstfang og umsókn var send, þar sem þú þakkar fyrir viðtalið. Með þessu móti nærðu einnig að minna á þig og ítreka áhuga þinn á starfinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
09.02.2020

Hvað er málið með örorkubætur?

Hvað er málið með örorkubætur?
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
20.06.2019

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“
EyjanNeytendur
19.04.2019

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda