fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Neytendur

Hvað er málið með örorkubætur?

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 9. febrúar 2020 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oft heyrist talað um örorkubætur, skerðingu á þeim og stöðu þeirra sem slíkar bætur þiggja. Hins vegar vita ekki alltaf allir nákvæmlega hvað felst í slíkum bótum. Hvaða ólíku liðir teljast sem örorkulífeyrir? Hvað er króna á móti krónu og hvernig virkar skerðingin?  DV tók saman nokkur hagnýt atriði um örorkulífeyri.

Hvað er örorkulífeyrir? 

Samkvæmt upplýsingum á vef Tryggingastofnunar er örorkulífeyrir „ætlaður einstaklingum á aldrinum 18–67 ára sem geta ekki unnið fulla vinnu sökum skertrar starfsgetu. Sótt er um að fara í örorkumat þar sem færni er metin.“ Örorkumat fer fram á læknisfræðilegum forsendum og er yfirleitt tímabundið. Þetta felur í sér að á vissra ára fresti þurfa örorkulífeyrisþegar að fara í endurmat, vilji þeir halda lífeyrisgreiðslum sínum. Eftir að örorka er metin er hægt að sækja um afturvirkar greiðslur, allt að tvö ár aftur í tímann, en þá þarf að sýna fram á að þeir þættir sem örorkumat grundvallast á hafi verið til staðar á því tímabili.

Hvað felst í örorkulífeyri? 

Örorkugreiðslur eru ekki ein föst krónutala sem gildir fyrir alla heldur eru þær samsettar úr ólíkum þáttum.

Fyrst ber að nefna tekjutrygginguna, sem er oft stærsti hluti örorkulífeyris. Óskert tekjutrygging er rúmlega 150 þúsund krónur á mánuði.

Næst er aldurstengd örorkuuppbót. Hún verður hæst um 50 þúsund krónur hjá þeim sem ungir eru fyrst metnir til örorku. Hún lækkar svo eftir því hve gamall öryrki er þegar hann fær fyrsta örorkumatið.

Á móti aldurstengdu örorkuuppbótinni kemur framfærsluuppbót. Hún er hærri eftir því sem aldurstengda örorkuuppbótin er lægri.

Síðan er hinn eiginlegi örorkulífeyrir sem óskertur er um 48 þúsund á mánuði.

Viðbótargreiðslur 

Ofan á þá tekjuliði sem greint er frá hér að framan geta komið viðbótargreiðslur sem taka mið af aðstæðum lífeyrisþegans.

Heimilisuppbót um 50 þúsund krónur á mánuði geta þeir öryrkjar fengið sem búa einir. Óskattskyldur barnalífeyrir, 34 þúsund á barn, greiðist til öryrkja með barn á framfæri.

Mæðra- og feðralaun greiðast til einstæðra foreldra sem eru með fleira en eitt barn á framfæri, 10.296 krónur vegna tveggja barna og 26.769 vegna þriggja barna eða fleiri.

Uppbót vegna rekstrar bifreiðar geta þeir örorkulífeyrisþegar fengið sem hafa gilt hreyfihömlunarmat og eiga bifreið. Uppbótin er óskattskyld og er óskert 17.180 krónur á mánuði.

Skerðingar á greiðslum 

Ólíkir liðir örorkulífeyris skerðast með ólíkum hætti. Þekktasta skerðingarreglan nefnist króna á móti krónu skerðing en slík skerðing á við um framfærsluuppbótina. Króna á móti krónu skerðingin felur í sér að hver króna af tekjum lífeyrisþega skerðir framfærsluuppbótina um krónu. Þessi skerðingarregla hefur verið harðlega gagnrýnd og hefur Öryrkjabandalagið meðal annara kallað eftir því að framfærsluuppbótin verði afnumin sem sjálfstæður tekjuliður og færður inn í tekjutrygginguna. Henni var þó breytt til batnaðar á síðasta ári og nemur nú skerðingin aðeins 65% af skattskyldum tekjum eða skerðingu um 65 aura á móti hverri krónu.

Tekjutryggingin skerðist með öðrum hætti. Öryrkjar hafa frítekjumark sem árið 2020 er 1.315.000 krónur fyrir allt árið ef um atvinnutekjur er að ræða og 328.000 krónur ef um greiðslur frá lífeyrissjóðum er að ræða. Fjármagnstekjur umfram 98.640 krónur skerða einnig. Tekjutryggingin er skert um 38 prósent af þeim tekjum sem fara umfram frítekjumarkið.

Örorkulífeyrir skerðist um 25 prósent þeirra tekna sem fara umfram frítekjumark.

Til að fá betri hugmynd um mismunandi skerðingu ólíkra tekjuliða er lesanda bent á reiknivélina á vefsíðu Tryggingastofnunar, tr.is. Þar er einnig hægt að sjá áhrif þess að hafa atvinnutekjur samhliða töku örorkulífeyris. Til dæmis getur öryrki, sem býr einn með ekkert barn á framfæri, þénað 400.000 krónur á mánuði fyrir skatt úr atvinnu en engu að síður fengið 96.772 krónur í örorkulífeyri. Mikið hærri atvinnutekjur myndu þó hins vegar fella niður allan bótarétt.

Tekjuáætlun

Örorkulífeyrisþegar þurfa að skila inn tekjuáætlun til að fá örorkugreiðslur. Það er gífurlega mikilvægt að hafa þessa áætlun nákvæma og breyta henni ef aðstæður breytast. Öryrkjar hafa margir brennt sig á því að fá bakreikning vegna ofgreiddra bóta eftir að Tryggingastofnun fær upplýsingar frá skattinum. Þessu var breytt til batnaðar á síðasta ári þegar lögfest var að Tryggingastofnun geti skoðað tekjur hvers mánaðar fyrir sig, sem og heildartekjur á ári og skuli miða við það sem skili hærri greiðslum til bótaþega.

Bílamál

Öryrkjar með hreyfihömlun gætu átt rétt á uppbót vegna rekstrar bifreiðar og jafnvel uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið. Hreyfihömlun þarf þá að skerða verulega færni einstaklings til að komast leiðar sinnar.  Uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið má sækja um á fimm ára fresti. Uppbótin er 720.000 krónur fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu bifreið og 360.000 krónur fyrir þá sem áður hafa átt bifreið. Styrkurinn nemur 1.440.000 krónum og er hann veittur þegar þörf er að á að kaupa bifreið vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Ef kaupa þarf sérútbúna bifreið þá getur styrkur numið allt að 50–60 prósentum af kaupverði bifreiðarinnar, þó að hámarki fimm milljónir.

Annað sem gott er að vita

Öryrkjar borga ekki bifreiðagjöld. Þeir fá afslátt af læknisþjónustu, ýmiss konar sérfræðiþjónustu, geta fengið afslátt í kvikmyndahúsum, húsdýragarðinum og þar fram eftir götum. Einnig geta þeir fengið afslátt af fasteignagjöldum. Lesendur eru hvattir til að kynna sér vel afsláttarkjör sem bjóðast öryrkjum, enda bótagreiðslurnar ekkert fagnaðarefni og skerðingarnar miklar.

Öryrkjar í fangelsi 

Greiðslur örorkulífeyris falla niður ef lífeyrisþegi fer í afplánun. Fangi getur þó sótt um ráðstöfunarfé til Tryggingastofnunar. Maki fangins lífeyrisþega getur fengið barnalífeyri greiddan til sín ef afplánun hefur varað í að minnsta kosti þrjá mánuði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
Neytendur
26.01.2020

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
20.06.2019

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“
EyjanNeytendur
19.04.2019

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda