fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanNeytendur

Við erum öll eigingjörn – Ég, þú og allir hinir!

Aníta Estíva Harðardóttir
Laugardaginn 13. apríl 2019 15:00

Það sem mestu máli skiptir er hugarfar okkar gagnvart framtíðinni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við mennirnir getum verið eigingjarnir. Ég, þú og allir sem við þekkjum. Eigingirni okkar kemur ekki alltaf fram sem einbeittur brotavilji gagnvart öðru fólki þar sem við gerum eitthvað slæmt á hlut annarra okkur til hags, þó svo að sú staðreynd eigi klárlega við í sumum tilfellum. Nei, eigingirni okkar kemur fram í þeirri einföldu sýn hvernig við eigum það til að fara með umhverfi okkar. Jörðina sem við búum á og tökum sem gefinni.

Flestallir Íslendingar hafa heyrt talað um hlýnun jarðar, spillingu eiturefna, hraða tísku og ofnotkun á plasti. Við heyrum þetta rætt á kaffihúsum, í fyrirlestrum, fréttunum og á ótal stöðum. Við vitum að þetta er ekki gott og við vitum að þetta er okkur sjálfum að kenna. Við hugsum oft: „Æi, ég mætti nú vera duglegri að flokka rusl,“ eða „Ég þarf nú kannski ekki að eiga tíu gallabuxur.“ En svo þegar kemur að því að framkvæma sitjum við oft á okkur. Finnst þetta flókið og kennum stóriðnaði og samfélagslegum þrýstingi um neysluvenjur okkar. Hugsum jafnvel: „Hverju breytir það svo sem ef ég flokka? Ég er bara ein manneskja á þessari jörð.“

Öllu. Er svarið við þeirri spurningu. Það sem mestu máli skiptir er hugarfar okkar gagnvart framtíðinni.

„Samfélagið þróast til hins betra þegar eldra fólk plantar trjám þó þau viti að þau muni ekki njóta skugga þess,“

segir gamalt viskukorn sem uppistandarinn Ricky Gervais hefur verið þekktur fyrir að nota. Þetta er ekki flókið. Allt sem við gerum hefur áhrif á fólkið í kringum okkur og mun hafa áhrif á komandi kynslóðir. Börnin okkar, barnabörn, barnabarnabörn og svo framvegis.

Rusl Breytir það einhverju ef þú flokkar?

Grænþvottur

Það tengja líklega mjög margir við það að byrja á einhverju, finnast það of erfitt eða of flókið og hætta því við. En hvert lítið skref sem við tökum í rétta átt er gott. Blaðamaður lagðist í rannsóknarvinnu og aflaði sér upplýsinga um flokkun, neyslu, endurvinnslu, grænþvott og fleira nytsamlegt sem gott er að hafa í huga.

Grænþvottur á sér stað þegar fyrirtæki gefa ranglega til kynna að það sé umhverfisvænt. Auglýsingar og merkingar á vörum lofa meiri umhverfisávinningi en þær í raun og veru innibera. Fyrirtæki reyna með þessum hætti að blekkja neytendur. Talað hefur verið um sjö syndir grænþvottar:

  1. Syndin að fela gallana
  2. Syndin að setja fram staðhæfulausar fullyrðingar
  3. Syndin að vera óskýr
  4. Syndin að leggja áherslu á aukaatriði
  5. Syndin um skárra af tvennu illu
  6. Syndin að segja ósatt
  7. Syndin að setja fram falskar merkingar

Gerðar hafa verið rannsóknir hérlendis sem gefið hafa til kynna að íslensk fyrirtæki hafi notfært sér grænþvott til þess að blekkja neytendur. Það getur gert okkur erfiðara fyrir enda er slæmt að geta ekki treyst fyrirtækjum til þess að markaðssetja vörur rétt. Það sem er best fyrir neytendur að gera í þessu tilfelli er að lesa sér til um fyrirtækið, framleiðandann og vöruna sjálfa. Einnig er mikilvægt fyrir okkur að taka meðvitaðar ákvarðanir þegar kemur að því að versla. Þarft þú á vörunni að halda? Við eigum það nefnilega til að kaupa miklu meira en við þurfum í raun og veru. Mörg fyrirtæki hafa nú tekið upp á því að selja ýmiss konar umhverfisvænar vörur svo sem drykkjarbrúsa úr áli í staðin fyrir plasti. En þarft þú á því að halda? Átt þú plastbrúsa heima sem þú getur enn þá notað?

Plast Ekki allt lífplast brotnar niður í náttúrunni.

Hvað með allt plastið?

Lífplast (PLA/PHA) er samheiti yfir plasttegundir sem framleiddar eru úr lífmassa í stað jarðefnaeldsneytis. Helsti kosturinn við notkun lífplasts er að efnið er framleitt úr endurnýjanlegum auðlindum og eru helstu hráefnin maís, sykurreyr, sykur og hálmur. Þessar tegundir plasts hafa verið notaðar til dæmis í plastpoka, penna og í stað einnota borðbúnaðar.

Lífplast er til í tveimur útgáfum. Það sem brotnar niður og það sem brotnar ekki niður.

„Lífplast sem brotnar ekki niður er framleitt úr lífmassa en hefur alveg sömu uppbyggingu og hefðbundið plast og flokkast því sem slíkt, til dæmis til endurvinnslu. Það er því mikilvægt að skilja á milli lífplasts sem á að fara í plastendurvinnslu og lífplasts sem er lífbrjótanlegt. Merkingar á slíku plasti geta verið bio-PE, bio-PET, bio-PA og bio-PP. Þessi tegund plasts er notuð í auknum mæli í samsettum umbúðum, til dæmis í plasttappa á drykkjarvörufernum.

Lífplast sem brotnar niður hefur sömu eiginleika og annað lífrænt efni, það er að það brotnar niður í vatn, CO2, lífmassa og metan. Niðurbrotið tekur um 10 vikur ef hita- og rakastig er hentugt og réttar örverur eru til staðar. Einn helsti kosturinn við lífbrjótanlegt plast er því sá að það getur brotnað niður í náttúrunni séu réttar aðstæður fyrir hendi. Hins vegar tekur það yfirleitt mun lengri tíma og það brotnar að líkindum aldrei alveg niður vegna þess að réttar aðstæður eru ekki fyrir hendi. Að geta brotnað niður er mikilvægur eiginleiki ef efnið fær ekki rétta úrgangsmeðhöndlun og endar í náttúrunni,“ segir á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Náttúran Allt það sem við setjum óflokkað í rusl endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni.

Hafa ber í huga að endurvinnsla á lífbrjótanlegu plasti er með allt öðrum hætti en venjulegu plasti. Það ætti ávallt að fara í almennt sorp eða með lífrænum úrgangi. Þegar ekki eru ákjósanleg skilyrði til niðurbrots lífplasts getur það hægt á niðurbrotinu og því er mikilvægt að átta sig á því að þeir lífplastpokar sem eru gjarnan notaðir undir heimilisrusl leysast ekki auðveldlega upp í heimajarðgerð.

Fyrir þá sem vilja minnka plastpokanotkun heimilisins er mikilvægt að vera duglegir að flokka. Því meira sem við flokkum því færri poka þurfum við. Endurvinnsluefni má fara laust í tunnurnar og ef nauðsynlegt þykir að nota plastpoka undir úrgang er gott að nota þá poka sem óhjákvæmilega koma inn á heimilið til dæmis undan brauði, kartöflum, fatnaði eða leikföngum.

Íslendingar sóa um þriðjungi af mat

Matarsóun á Íslandi er gríðarleg og er talið að við sóum um þriðjungi. Þegar við drögum úr matarsóun lágmörkum við neikvæð áhrif á umhverfið og gott er að tileinka sér ýmis húsráð eins og að skipuleggja innkaup, nýta frystinn og borða afganga. Það sem er gott að gera við þá matarafganga sem við ekki notum er að molta þá eða gefa smáfuglum.

Snyrtivörur Ert þú að eitra fyrir þér?

Skaðleg innihaldsefni snyrtivara. Hvað getum við gert?

Í fyrsta lagi er gott að draga úr notkun snyrtivara eins mikið og þú getur. Þá er gott fyrir þig að velja vörur sem eru umhverfisvottaðar með til dæmis Svaninum eða Evrópublóminu. Með þeim þarft þú ekki að hafa áhyggjur af því að vörurnar innihaldi rotvarnarefni, ofnæmisvaka, efni sem geta verið hormónaraskandi eða séu ekki ákjósanleg í náttúrunni.

Sniðugt er að kaupa sápur í stærri umbúðum og fylla frekar á minni umbúðir sem þú átt til á heimilinu. Þá eru handa- og hársápur einnig fáanlegar í stykkjum en ekki fljótandi efni og eru þær umhverfisvænni.

Búðu til þitt eigið krem og farða. Kókosolíu má til að mynda vel nota sem farðahreinsi og einnig til þess að viðhalda raka húðarinnar.

Hreingerning með hreinsiefnum skilur alltaf eftir efnaleifar í umhverfinu

Mörg þvotta- og hreinsiefni geta verið ertandi og jafnvel ætandi. Þegar við notum hreinsiefni verða ávallt efnaleifar í umhverfinu og eru ung börn sérstaklega berskjölduð fyrir þeim þegar þau skríða um gólfin.

Til að byrja með er gott að minnka þá skammta sem þú notar til þess að þrífa. Til að mynda hefur verið sýnt fram á það að Íslendingar eigi það til að nota allt of stóra þvottaefnaskammta í þvottavélarnar en vatnið á Íslandi er steinefnasnautt og þess vegna þurfum við minna þvottaefni en önnur lönd.

Með einfaldri leit á veraldarvefnum má finna margar góðar uppskriftir að náttúrulegum hreinsiefnum úr einföldum hráefnum eins og matarsóda, sítrónu, ediki og öðru. Þá er einnig gott að draga úr umbúðakaupum með því að kaupa stórar umbúðir og fylla á minni. Vörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Evrópublóminu innihalda lágmarksmagn af efnum.

Veldu húsgögnin þín vel. Mörg þeirra innihalda eiturefni

Við eigum það til að fá nóg af þeim húsgögnum sem við eigum og þegar stórar verslunarkeðjur bjóða upp á gott verð og einföld kaup þá eigum við það til að bíta á agnið.

Þarft þú á þessu húsgagni að halda? Ef svo er hafðu þá í huga hver ending þess er, gæði, vottun og annað. Nýttu húsgögnin þín vel, ekki skipta um „af því bara.“ Stöðugt fleiri framleiðendur vinna í því að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu sinnar og því er ekki erfitt að fá svar við því hvort húsgögnin séu umhverfisvottuð.

Þegar keypt er nýtt innihúsgagn er gott að láta lofta vel um það í nokkra daga en það getur gefið frá sér skaðleg efni til að byrja með. Forðastu að kaupa húsgögn með gervileðri og lengdu líftíma húsgagna með því að gefa þau áfram eða selja.

Fatnaður Hver bjó til fötin þín?

Nýjasta tíska?

Þegar kemur að fatanotkun er nokkuð algengt að í skápnum okkar leynist föt sem við notum sjaldan eða aldrei. Þau er gott að gefa áfram til fatasöfnunar Rauða krossins til dæmis. Ekki kaupa þér óþarfa flíkur og reyndu að vanda valið vel þegar kemur að kaupunum. Hröð tíska og ódýr föt sem koma frá stórum verslunum eru ekki góð kaup. Vörurnar eru yfirleitt ekki í góðum gæðum, koma frá slæmum framleiðendum og eru hönnuð til þess að endast stutt.

Þarft þú í raun og veru að eiga tíu peysur, fimmtán kjóla og tuttugu skópör? Reyndu að kaupa þér endingargóð föt hjá fyrirtækjum sem passa vel upp á umhverfið.

 

Allt of flókið að flokka?

Í dag eru margar vörur orðnar flókar til endurvinnslu. Því tæknivæddari sem þær eru því fleiri hráefni þarf til þess að framleiða þær og allt það sem við setjum óflokkað í rusl endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni. Flokkun og endurvinnsla er því lykilatriði til þess að forðast mengun.

Flokkun Hver fjölskylda getur komið upp sinni aðstöðu.

Þær vörur sem ekki er hægt að endurvinna eru meðal annars tyggigúmmí, svampar og einnota bleyjur. Langflestar aðrar vörur sem við notum dagsdaglega er hægt að endurvinna. Timbur, plast, gler, málmar og pappír missa ekki eiginleika sína og hægt er að endurvinna þær margoft. Spilliefni eins og rafhlöður, olíumálning, terpentína, tjöruleysir, lyf og fleira er bannað að urða og brenna. Þeim ber að skila inn til endurvinnslustöðva.

Það er í raun ekki nein ein leið best til þess að byrja að flokka en hver og ein fjölskylda getur sett upp aðstöðu sem hentar henni best. Gott er að flækja hlutina ekki fyrir sér og yfirleitt þurfa ekki miklar breytingar að eiga sér stað. Flokkið plast, pappír og annan úrgang hvert í sitt ílátið. Bara með þeim breytingum sjáum við strax mikinn mun og leggjum okkar af mörkum.

Bæði einnota pappírsbleyjur sem og margnota taubleyjur hafa í för með sér neikvæð umhverfisáhrif. Þó eru áhrif margnota taubleyja töluvert minni og séu þær þvegnar á réttan hátt minnka umhverfisáhrif þeirra töluvert. Því getur verið góður kostur að nota taubleyjur frekar en pappírsbleyjur fyrir börnin okkar. Veldu blautþurrkur sem innihalda ekki paraben eða ilmefni en þau efni geta valdið hormónaraskandi áhrifum og ofnæmi. Sneiddu hjá snuðum, pelum og naghringjum sem innihalda þalöt.

Í dag er talið að hver Íslendingur noti á milli 100–200 plastpoka á ári, sem er rosalegt magn. Handtöskur, margnota innkaupapokar eða að nota sama plastpokann aftur og aftur er góð lausn til þess að minnka þessa notkun. Teljir þú þig eiga mikið af pokum sem ekki eru í notkun, gefðu þá ættingjum eða vinum þá sem ekki eru byrjaðir að draga úr einnota notkun.

Allt sem við getum gert til þess að hjálpa til skiptir máli. Fyrir mig, fyrir þig og fyrir komandi kynslóðir. Ætlar þú að gróðursetja tré fyrir aðra til að njóta?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
09.02.2020

Hvað er málið með örorkubætur?

Hvað er málið með örorkubætur?
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
EyjanNeytendur
23.07.2019

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
06.05.2019

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“