Örbylgjuofnar sem notaðir eru í Evrópu menga á við tæplega sjö milljónir bíla, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar vísindamanna við University of Manchester á Englandi.
Um er að ræða fyrstu yfirgripsmiklu rannsóknina á umhverfisáhrifum örbylgjuofna. Vitanlega losa örbylgjuofnar ekki beinlínis út koltvísýring þegar matur er hitaður. En, þegar allt er tekið með í reikninginn, allt frá framleiðslu, orkunotkun og förgun, kemur í ljós að örbylgjuofnar bera ábyrgð á því sem nemur losun 7,7 milljóna tonna af koltvísýringi á ári hverju. Það er um það bil það sama og 6,8 milljónir bíla losa á hverju ári að jafnaði.
Örbylgjuofnar eru mikið notaðir í Evrópu – og víðar vitanlega – en notkun þeirra hefur aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Talið er að 135 milljónir örbylgjuofna verði í notkun í Evrópu árið 2020.
Til að gæta allrar sanngirni eru 6,8 milljónir bíla ekki mikið, sé litið til fjölda bíla á götum Evrópu. Í Bretlandi eru 37,5 milljónir bíla, Frakklandi eru 32 milljónir bíla, 37 milljónir á Ítalíu og 45 milljónir í Þýskalandi.
Sérfræðingarnir sem stóðu fyrir rannsókninni komust að því að örbylgjuofnar í Evrópu noti orku sem nemur 9,4 teravattstundum á klukkutíma. Til að anna slíkri orkuþörf þyrfti um þrjú nokkuð stór orkuver, að því er fram kemur í frétt breska blaðsins Independent.
Rannsakendur segja að þó ekki verið farið í harðar aðgerðir gegn örbylgjuofninum sé gott að vekja almenning til umhugsunar um þá staðreynd að örbylgjuofnar, eins og önnur orkufrek heimilistæki, eru ekki sérstaklega umhverfisvæn. Þá er bent á að lægra verð á raftækjum og aukinn kaupmáttur almennings stuðli að ákveðinni sóun. Fólk hreinlega hendi heimilistækjum eins og örbylgjuofnum þó þeir séu í fullkomlega góðu lagi og kaupi sér ný tæki.
Á móti benda rannsakendur á að örbylgjuofnar í dag endast verr en áður. Á tíunda áratugnum hafi þeir enst í um 10-15 ár að jafnaði en í dag sé endingartíminn aðeins 6-8 ár.