Samkvæmt úttekt hjá vefsíðunni vouchercloud.com trónir Ísland á toppnum yfir dýrustu Evrópulöndin á skammtímaleigusíðunni Airbnb.com. Að meðaltali kostar nóttin í íslenskri íbúð rúmlega 15.000 krónur. Í öðru sæti kemur Svíþjóð með rúmlega 11.000 krónur og í þriðja sæti Andorra með tæplega 11.000 krónur. Ódýrast er að leigja íbúð í Makedóníu, þar er meðalverð nætur einungis um 3.500 krónur.
Leiguverðið er almennt hátt á Norðurlöndunum, á Bretlandseyjum og á vesturhluta meginlandsins. Það er ódýrara í suður-og austurhlutanum og svo í Þýskalandi. Á síðunni segir að Þýskaland, Portúgal, Pólland og Króatía séu sérstaklega hagstæð miðað við þann fjölda ferðamanna sem þangað halda.
Á síðunni er einnig tekið fram að verð í höfuðborgum sé yfirleitt töluvert hærra en annars staðar í löndunum. Þetta eigi sérstaklega við Amsterdam, Róm, Moskvu og Lissabon.
Ísland er umtalsvert dýrara en önnur lönd þegar pantað er fyrir tvo. Þegar um stærri íbúðir er að ræða, fyrir allt að 6 gesti, þá er Ísland í öðru sæti á eftir Sviss.