Níu vörutegundir af fimmtán í verslun Costco í Kauptúni hafa hækkað í verði undanfarna mánuði en aðeins tvær vörutegundir hafa lækkað í verði. Þetta leiðir verðathugun Fréttablaðsins í ljós en blaðið bar verðið saman við verð á völdum vörum úr verðlagsathugunum ASÍ þann 5. september og 3. júlí.
DV fjallaði þann 19. október síðastliðinn um verðhækkanir í Costco en fréttin var unnin upp úr umræðum í Costco-hópnum Keypt í Costco. Þar lýstu meðlimir hópsins þungum áhyggjum af verðhækkunum á hinum ýmsu vörum, til dæmis grískri jógúrt, sveppum, niðursuðudósum af kjúklingabringum, gervijólatrjám og agúrkum svo dæmi séu tekin.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að Smjörvi hafi hækkað um 26,4 prósent. 400 gr. askja kostaði 379 krónur í könnun ASÍ þann 4. júlí, en í gær, 2. nóvember, kostaði hún 479 krónur. Þá hafi rjómaostur frá MS hækkað um 20 prósent síðan í sumar. Þá er bent á að 20 prósenta hækkun hafi orðið á lítraverði Coca Cola í 1,75 lítra flöskum.
Mesta lækkunin varð á 500 gramma dós af hreinu MS skyri. Hún kostaði 438 krónur í könnun ASÍ þann 4. júlí en 217 krónur í gær.