„Áfengisgjöld á Íslandi eru þau hæstu í Evrópu og fara stöðugt hækkandi. Þrátt fyrir að virðisaukaskattur á áfengi sé lægri hér en víðast hvar í Evrópu er samanlögð skattlagning á áfengi mest á Íslandi.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda. Þar segir að með hækkun áfengisgjalds í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 muni kassi af léttvíni hækka um meira en 500 krónur svo dæmi sé tekið.
„Ódýrari vínin hækka hlutfallslega meira en þau dýrari og hækkun áfengisgjalda bitnar því enn og aftur verr á neytendum sem minna hafa á milli handanna.“
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA segir:
„Skattlagning á áfengi er hins vegar orðin svo gjörsamlega fráleit að öll rök standa til þess að lækka þá skattinn á bjór fremur en að hækka hann á léttvíni. Við bendum jafnframt á að vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala sem leggst á magn hreins vínanda, verður hlutfallsleg hækkun á ódýrari vínum mun meiri en á þeim dýrari. Enn og aftur eru það því þeir sem minnst hafa á milli handa sem verða harðast fyrir barðinu á þessari takmarkalausu skattagleði stjórnvalda.“
Þá segir Ólafur á öðrum stað:
„Það er kominn tími til að einhver af hinum meintu frjálslyndu þingmönnum í stjórnarliðinu segi einfaldlega hingað og ekki lengra; það er ekki endalaust hægt að hækka skatta á einni neysluvöru.“