Á vefsíðunni Leiga.is er 30 fermetra stúdíóíbúð í miðborginni auglýst til leigu. Það sem vekur athygli er að leiguverðið slagar upp í 300 þúsund krónur á mánuði. Fram kemur í auglýsingunni, sem er skrifuð á ensku, að um sé að ræða „sætt stúdíó á frábærum stað“ og að íbúðin sé aðeins „nokkrum skrefum frá Laugavegi, sama og Oxford Street í London.“
Þá er tekið fram í auglýsingunni að Sundhöll Reykjavíkur í aðeins einnar mínútu göngufjarlægð „og þeir eru líka með heitan pott. Opið allt árið.“ Þess má geta að Sundhöll Reykjavíkur er sem stendur lokuð vegna framkvæmda.
Íbúðinni fylgja húsgögn og innifalið í leiguverðinu séu hiti,vatn,rafmagn,hússjóður og þrif. Annað leiguverð er gefið upp í lýsingunni, 210 þúsund krónur.Áhugasamir þurfa að reiða fram 175 þúsund krónur í tryggingu. Boðið er upp á einnar nætur dvöl á 15 þúsund krónur og þá býðst 15 prósent afsláttur af vikudvöl. Hins vegar býðst ekki afsláttur af mánaðardvöl.
Á facebookhópnum Leiga er vakin athygli á auglýsingunni og er augljóst að hún vekur talsverða hneykslan meðal meðlima. Varpar einn af meðlimum hópsins fram spurningunni hvort hér sé um að ræða afturhvarf til ársins 2007: „Fylgir hóra, kókaín og gullhúðaður klósettpappír með?“
„Græðgin er að drepa fólk i dag,“ segir annar meðlimur og sá þriðji vekur athygli á því í athugasemd undir færslunni að fyrir lægra verð, eða 240 þúsund krónur sé hægt að leigja 140 fermetra íbúð í Norðlingaholti. Þá ritar annar:
„Þegar maður heldur að græðgin geti ekki orðið meiri.Þú gætir fengið virkilega flotta penthouse íbúð með öllu í hjarta Kaupmannahafnar fyrir þennan pening.“