ÍSEY skyr er nýtt vörumerki MS fyrir skyr sem fyrirtækið hefur látið hanna fyrir erlenda markaði og á Íslandi. Vörumerkið var unnið í samstarfi við innlenda og erlenda ráðgjafa í vörumerkjahönnun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MS.
Þar segir:
„Nafnið ÍSEY vísar í Ísland og er auk þess íslenskt kvenmannsnafn en íslenskar konur sáu öldum saman um að búa til skyr. Nafnið þykir einnig hentugt vegna þess að það er stutt og einfalt og auðvelt að bera fram á mismunandi tungumálum.“
ÍSEY skyr verður skráð vörumerki MS fyrir skyri þegar unnið er í samkeppni á erlendum mörkuðum við aðila sem framleiða og selja vöru sem kölluð er skyr. Til að hafa samræmi og heildstæða stefnu í markaðs- og vörumerkjavinnu með íslenska skyrið verður vörumerkið ÍSEY skyr einnig tekið upp á Íslandi.
Í tilkynningu MS segir að skyrsala fyrirtækisins á Íslandi og á erlendum mörkuðum hafi aldrei verið meiri en á árinu 2016. „MS og samstarfsaðilar þess á Norðurlöndum seldu um 16.000 tonn af skyri á síðasta ári. Á Íslandi seldist um 3.000 tonn og erlendis voru seld um 13.000 tonn. Söluaukning á skyr.is innanlands var um 25% á síðasta ári sem er söluaukning sem á sér ekki fordæmi. Skýringin á þessari miklu söluaukningu innanlands er rakin til aukins ferðmannastraums til landsins.“
Stefnt er að því að byrja að nota nýja vörumerkið í Sviss og Englandi á þessu ári. Jafnframt verður hafin sala á ÍSEY skyri í Benelux löndunum á vormánuðum þar sem nýja vörumerkið verður jafnframt kynnt. Þá eru samningaviðræður hafnar við áhugasama aðila í Rússlandi, Nýja Sjálandi og Ástralíu um markaðssetningu og sölu á ÍSEY skyri.