Verð snarlækkaði á sumum tækjum í kjölfar þess að DV fór að leita skýringa –
Allmörg sjónvarpstæki snarlækkuðu í verði í kjölfar fyrirspurnar DV til íslenskra söluaðila. Lækkunin nam í sumum tilvikum á bilinu 50 til 110 þúsund krónum. Föstudaginn 2. desember var verðmunurinn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum að jafnaði rúmlega 40 prósent. Þá var miðað við fullt verð. Sléttri viku síðar var hann kominn niður í 30 prósent, stundum með afsláttum og tilboðum. Þessi viðbrögð gefa til kynna að íslenskir smásalar hafi margir hverjir mikið svigrúm til að lækka hjá sér verð.
Til að allrar sanngirni sé gætt má taka fram að vera má að einhverjar nýjar sendingar hafi borist til landsins á þeirri viku sem leið á milli verðathugana og að vegna styrkingar krónunnar hafi fyrirtæki fengið sjónvörp á hagstæðara verði. Það skýrir þó ekki nema í besta falli hluta verðlækkunarinnar sem varð á einni viku.
DV birtir í dag umfangsmikinn samanburð á verði á sjónvarpstækjum. Á heildina litið stenst verð á Íslandi ekki verði í nágrannalöndunum snúning. Algengasta stærð á sjónvarpstækjum um þessar mundir er 55 tommur. Á Íslandi fást um það bil fjörutíu týpur sjónvarpstækja sem eru af þessari stærð. Nánast öll tækin eru svokölluð 4k tæki og nefnast ýmist UHD og SUHD. Öll tækin eru snjöll og þau eru ýmist bogin eða bein. Sum tækjanna geta varpað myndinni í þrívídd.
Taflan hér fyrir neðan sýnir hvernig 55 tommu sjónvarpstæki voru verðlögð á Íslandi þann 9. desember síðastliðinn. Í dálknum lengst til hægri er hlutfallstala. Hún gefur til kynna hvernig verðlagið er að jafnaði í völdum samanburðarverslunum á Norðurlöndum. Þannig er efsta tækið 11% ódýrara á Íslandi en í þeim samanburðarverslunum á Norðurlöndum þar sem tækið var til.
Tegund | Vörnúmer | Búð | Verð | Norðurlönd |
---|---|---|---|---|
LG | 55EG960V | Elko | 399.995 | -11% |
Sony | KD55XD8599 | Árvirkinn | 199.990 | -9% |
Sony | KD55XD8599 | Nýherji | 199.990 | -9% |
Panasonic | TX55DX603E | HT | 129.995 | -1% |
LG | OLED55E6V | SM | 439.990 | 1% |
LG | OLED55E6V | HT | 439.995 | 1% |
LG | OLED55E6V | Elko | 449.995 | 3% |
Samsung | UE55KU6675 | Elko | 179.995 | 5% |
LG | 55UH750V | Elko | 169.995 | 6% |
Samsung | UE55KU6075 | Elko | 139.995 | 6% |
LG | 55UH600V | Elko | 129.995 | 7% |
LG | 55EF950V | Elko | 399.995 | 9% |
LG | 55UH668V | HT | 159.995 | 9% |
Sony | KD55XD8005 | Elko | 154.995 | 9% |
Philips | 55PUS6501 | Elko | 144.995 | 13% |
Philips | 55PUS6031 | HT | 109.995 | 14% |
Sony | KD55XD8505 | Elko | 164.990 | 17% |
Sony | KDL55W755 | Elko | 139.995 | 19% |
Sony | KD55XD8005 | Nýherji | 169.989 | 20% |
Philips | 55PUS7101 | Elko | 179.995 | 21% |
Sony | KD55X8505 | Nýherji | 169.990 | 25% |
LG | 55UH605V | SM | 129.990 | 25% |
LG | 55UH605V | HT | 129.995 | 25% |
TCL | U55S6906 | Elko | 99.995 | 26% |
Philips | 55PUS6561 | SM | 149.990 | 26% |
Philips | 55PUS6561 | HT | 149.995 | 26% |
Sony | KD55SD8505 | Nýherji | 254.991 | 28% |
LG | 55UH950V | Elko | 269.995 | 28% |
Sony | KD55XD9305 | Nýherji | 259.990 | 30% |
Samsung | UE55KS7005 | Elko | 189.995 | 30% |
LG | 55UH850V | SM | 249.990 | 32% |
LG | 55UH850V | HT | 249.995 | 32% |
Philips | 55PUT6101 | Elko | 109.995 | 32% |
LG | 55UH650V | Elko | 149.995 | 34% |
Samsung | UE55KU6515 | Elko | 189.995 | 35% |
Thomson | 55UA6406 | SM | 149.990 | 36% |
Sony | KD55X8505 | Árvirkinn | 189.990 | 40% |
Philips | 55PUT6401 | HT | 129.995 | 40% |
Philips | 55PUS8601 | SM | 319.990 | 41% |
Samsung | UE55KU6655 | Árvirkinn | 189.900 | 42% |
Samsung | UE55KU6655 | Ormsson | 189.900 | 42% |
Samsung | UE55KS9005 | Elko | 319.995 | 42% |
Samsung | UE55KS7505 | Elko | 249.995 | 42% |
Samsung | UE55KS7005 | Ormsson | 209.900 | 44% |
Samsung | UE55KS8005 | Elko | 249.995 | 48% |
Sony | KD55XD9305 | Elko | 299.995 | 50% |
Samsung | UE55KS9005 | Ormsson | 339.900 | 51% |
Samsung | UE55KS7505 | Ormsson | 269.900 | 54% |
Samsung | UE55KS8005 | Árvirkinn | 269.900 | 60% |
Samsung | UE55KS8005 | Ormsson | 269.900 | 60% |
Samsung | UE55K5505 | Ormsson | 149.990 | 61% |
TCL | U55S7906 | Elko | 159.995 | 64% |
Samsung | UE55KU6475 | Árvirkinn | 179.900 | 66% |
Samsung | UE55KU6475 | Ormsson | 179.900 | 66% |
Philips | 55PUS8601 | HT | 379.995 | 68% |
Samsung | UE55KU6175 | Árvirkinn | 159.900 | 68% |
Philips | 55PUS7181 | SM | 249.990 | 74% |
Þegar DV kannaði verð á 20 vörum í jafn mörgum verslunum, í stórri úttekt á dögunum, höfðu verslunareigendur stundum þá skoðun að DV – sem valdi vörurnar af handahófi – hefði valið óheppilega týpu með tilliti til verðsamanburðar. Blaðið hefði fyrir tilviljun hitt á undirgerð sem kom illa út í verðsamanburði. Úttektinni í dag er ætlað að útiloka slíkar skýringar. Að þessu sinni er verð á Íslandi í ELKO, Sjónvarpsmiðstöðinni, Heimilistækjum, Ormsson, Nýherja og Árvirkjanum Selfossi undir. Hér eru nálega öll 55 tommu tæki sem fást á Íslandi. Frá því að DV fór að punkta niður verð, fyrir nokkrum dögum, hafa einhver ný tæki komið á markað. Fáeinir smærri seljendur eru á markaði en ólíklegt verður að þykja að þeir hafi aðrar gerðir 55 tommu sjónvarpa en þær sem hér eru. Hér birtist því allt að því tæmandi samanburður á vöruverði á 55 tommu sjónvarpstækjum á milli landa.
DV ákvað að takmarka erlendar samanburðarverslanir mjög, til að mæta gagnrýni verslunarinnar en í stórri úttekt á vöruverði, sem DV birti á dögunum, vildu íslenskir verslunareigendur meina að ótækt væri að bera saman verð í raunverslun og netverslun. Hér eru þær verslanir sem DV valdi til að bera saman verð:
Í Danmörku: Elgiganten, Power, Bilka, Sony Center og Euronics.
Í Noregi: Elkjöp, Euronics, Siba, Budal Radio og Expert.
Í Svíþjóð: Elgiganten, Siba, AudioVideo og Mediamarkt.
Eins og áður segir er verðmunurinn á Íslandi og meðaltali annarra Norðurlanda að jafnaði 30 prósent. Mörg dæmi voru um að hægt væri að finna sömu vöru á mun hagstæðara verði en í þeim fjórtán erlendu verslunum sem DV hefur til hliðsjónar. Þannig seldu sextán sænskir verslunarmenn Sony KD55XD8599 tæki á lægra verði en í viðmiðunarverslununum, þegar DV kannaði málið á föstudag. Tækið kostaði um 232 þúsund í viðmiðunarverslun en yfirleitt 171 þúsund í hinum verslunum sextán. Verðmunurinn er því í mörgum tilvikum enn meiri.
Þegar horft er til samanburðar einstakra íslenskra verslana við hin Norðurlöndin sést að ELKO kemur best út. Tuttugu og þrjú sjónvarpstæki voru á föstudaginn að jafnaði 15,3 prósentum dýrari í ELKO en á hinum Norðurlöndunum. Munurinn var 23,5 prósent viku áður. Eitt tæki var á föstudaginn ódýrara en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum, LG 55EG960V, en það fannst aðeins í Elgiganten í Danmörku, af þeim samanburðarverslunum sem notaðar voru. Í svari Gests Hjaltasonar, forstjóra ELKO, kom fram að almennt séð þá nyti ELKO ekki sömu innkaupskjara og „risarnir í Evrópu“. ELKO er vörumerki tengt raftækjarisanum Dixons Carphone en á vefsíðu ELKO segir að fyrirtækið sé með viðskiptasamning við stærstu raftækjakeðju Norðurlandanna, Elkjöp, sem sé í eigu Dixons Carphone.
Gestur sagði enn fremur í svari til DV að kostnaður við flutning nemi 4–6 pr´sentum af verðmæti raftækja. „Fjármögnun vörubirgða ELKO er 6–7 sinnum dýrari en verslana í Evrópu. Ekki er við því búist að verð á raftækjum verði fyllilega samkeppnishæft við það sem lægst er boðið í Evrópu. En [við] erum ekki sáttir við 25–50 prósenta hærra verð og köllum þá eftir hagstæðara innkaupsverði.“ Hann sagði að lækkandi framlegðarprósentu mætti glöggt sjá í ársreikningum ELKO í gegnum árin. „Álagning á raftæki á Íslandi er sennilega sú lægsta á sérvöru sem þekkist hér á landi og má glöggt sjá það í ársuppgjöri fyrirtækja á Íslandi.“
Verðmunurinn í Nýherja og í verslunum á hinum Norðurlöndunum reynist nú að jafnaði 19 prósent. Um er að ræða fimm tæki frá Sony. Fyrir rúmri viku var verðmunurinn 41 prósent, miðað við fullt verð. Mestu munaði þar um verð á tveimur tækjum, KD55X8505 og KD55X8509, sem voru að jafnaði 70–102 prósentum dýrari en á hinum Norðurlöndunum. Annað tækið er ekki lengur í sölu hjá Nýherja en verð á KD55X8505 hefur frá því DV leitaði skýringa lækkað um 80 þúsund krónur.
Eyjólfur Jóhannsson hjá Nýherja segir í svari til DV að líklega megi rekja verðmun á Sony sjónvarpstækjum til 7,5 prósenta tolla, smæðar markaðarins og hærri flutningsgjalda. „Sony sjónvörp bera 7,5 prósenta toll við innflutning til Íslands þar sem þeir geta ekki uppfyllt að senda Euro skírteini sem fellir hann niður.“ Hann nefnir að framleiðendur þurfi, til að geta boðið tollfría vöru innan Evrópu, að geta sýnt fram á að tækin sé framleidd innan ESB og tiltekið hlutfall íhluta sé einnig þaðan.
Að auki bjóði Nýherji upp á fimm ára ábyrgð en hjá öðrum aðilum þurfi að greiða sérstaklega fyrir slíka ábyrgð. Hann boðaði verðlækkun á þessum tveimur tækjum, sem mestu munaði á, og sagði að Nýherji ætti aðeins örfá eintök eftir af þeim. Um væri að ræða gamlar týpur. Sú verðlækkun er komin fram nú. Hann fagnar því að tækin sem Nýherji „leggi mesta áherslu á“, 8005 og 8505, séu á góðu verði samanborið við erlendu aðilana.
Árvirkinn á Selfossi er með sex 55 tommu sjónvarpstæki til sölu. Verðið þar er að jafnaði 20 prósentum hærra en á hinum Norðurlöndunum sem um ræðir. Á sumum tækjanna hefur verðið lækkað verulega á milli vikna. Þannig kostuðu Sony-tækin fyrir viku 250 þúsund og 260 þúsund. Fyrir helgi kostuðu þau hins vegar 190 og 200 þúsund. Raunar er Sony KD55XD8599 á mjög góðu verði í Árvirkjanum nú, samanborið við hin Norðurlöndin. Tækið er á 9 prósentum lægra verði en úti.
Hjá Sjónvarpsmiðstöðinni voru sjö 55 tommu tæki þegar DV hóf að taka niður verð. Eitt tæki, LG OLED55E6V er á sama verði og á hinum Norðurlöndunum en önnur tæki eru töluvert dýrari. Verðmunurinn, heilt á litið, er 34%. Ólafur Már Hreinsson sagði við DV á dögunum að um 5% af verði sjónvarpstækjanna sé til komið vegna flutningskostnaðar. Það sé fyrirtækinu keppikefli að bjóða vörur sínar á samkeppnishæfu verði miðað við nágrannalöndin. „Og helst á lægra verði“.
Sjónvarpstækin sjö sem finnast þessarar stærðar í Ormsson eru 54 prósentum dýrari en að meðaltali í samanburðarverslununum á hinum Norðurlöndunum. Þetta er raunin þótt öll tækin séu núna á tilboði í Ormsson. Þann 2. desember voru fimm af sjö tækjum á tilboði en núna eru þau öll á niðursettu verði. Fullu verði væri munurinn meira en 70 prósent.
Bjarni Þórhallsson hjá Ormsson segir, beðinn um að skýra verðmuninn, að verðstríð hafi geisað á Norðurlöndunum að undanförnu, í tengslum við svartan föstudag, sem var í lok nóvember. DV tekur fram að til undantekninga heyrir ef sjónvarpstækin á hinum Norðurlöndunum eru skráð á tilboði eða með afslætti. Verð á mjög fáum tækjum breyttist á milli daganna 2. og 9. desember. „Við höfum reynt að fylgja verði í Evrópu og erum mun nær verði á meginlandinu en á þessum tilboðum sem þarna er miðað við,“ segir hann. Bjarni segir einnig að hagræði felist í því að geta keypt inn vörur í miklu magni, eins og stórir aðilar geti gert.
Verð hjá Heimilistækjum hefur hríðfallið að undanförnu. Eftir að DV hafði samband minnkaði verðmunurinn á milli landa úr 47 prósentum í 24 prósent. Áður höfðu tækin lækkað mikið í verði. Verð á tveimur sjónvarpstækjum í Heimilistækjum er þannig, miðað við verð á föstudaginn, á pari við verð á hinum Norðurlöndunum. Tekið skal fram að tækið sem nú er 68 prósentum dýrara í Heimilistækjum en á hinum Norðurlöndunum, finnst aðeins í samanburðarverslun í Svíþjóð. Tækið fæst reyndar í mörgum öðrum verslunum.
Hlíðar Þór Hreinsson hjá Heimilistækjum segir í ítarlegu svari til DV að þótt rekstrarumhverfið hér hafi batnað muni breytur eins og smæð landsins og fjarlægð ekki breytast í bráð. Hann nefnir að tollurinn hér sé 7,5 prósent af þeim tækjum sem hafa Asíu skráð sem upprunasvæði. Þess má geta að í Danmörku er tollur á sjónvörp 14 prósent utan ESB, auk þess sem virðisaukaskattur er enn hærri en á Íslandi. Í Noregi er enginn tollur á sjónvörp, en 25 prósenta vaskur. Hlíðar segir að tollurinn detti niður um áramót og í kjölfarið muni verð lækka. Hann segir að gengisbreytingar skýri þá verðlækkun sem orðið hafi í Heimilistækjum að undanförnu. Hann nefnir líka að neytendalöggjöf sé ólík á Íslandi, miðað við önnur lönd. Það kosti aukalega. Þá hafi kostnaður við þjónustu á Íslandi vaxið mjög með launahækkunum undanfarin ár. Þess má geta að DV er ekki kunnugt um að laun séu hærri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. „Þau þjónustuverkstæði sem við eigum viðskipti við hafa flest hver hækkað verð á árinu.“ Þá nefnir hann háan flutningskostnað, þörf fyrir stærri lager – vegna þess hve langan tíma tekur að fá vörur sendar – og háa vexti. Þá sé stjórnunarkostnaður iðulega hár á Íslandi í samanburði við stórar verslanakeðjur. Hann segir að að samanlögðu sé ljóst að heilt yfir geti Ísland aldrei staðist Evrópu snúning hvað verðlag varðar. Það sé óraunhæft.
Eftir verðlækkanir verslana undanfarna daga er nú hægt að fá fjögur tæki á lægra verði á Íslandi en í viðmiðunarverslununum á hinum Norðurlöndunum. LG55EG960V fæst í ELKO á 399.995 krónur. Það er 11 prósentum ódýrara en í Elgiganten í Danmörku en fæst ekki í hinum samanburðarverslununum. Tækið er þó hægt að fá ódýrara í sænskri netverslun en þar kostar það 366 þúsund íslenskar krónur. Sony tæki, KD55XD8599, kostar 200 þúsund krónur í Árvirkjanum og Nýherja og er 9 prósentum ódýrara en í samanburðarverslununum. Þá eru Panasonic TX55DX603E og LG OLED55E6V á sama verði hér og í samanburðarverslununum. Önnur 55 tommu sjónvarpstæki eru dýrari.
Tekið skal fram að í sumum verslununum var varan ekki til á lager. Í þeim tilvikum þar sem hægt var að panta vöruna á uppgefnu verði, og ganga frá greiðslu, var uppgefið verð haft til viðmiðunar. Í öðrum verslunum var ekki hægt að ganga frá pöntun. Í þeim tilvikum tók DV verð ekki með.
Samsung-tækin raða sér mörg hver neðarlega á lista yfir bestu „dílana“. Algengt er að verðmunur á Samsung-tækjum sé 40–60 prósent. Óhagstæðast er að kaupa Philips tæki, 55PUS7181, hjá Sjónvarpsmiðstöðinni en það er að meðaltali 74 prósentum dýrara þar en í samanburðarverslununum. Tækið er 20 prósentum dýrara en í Danmörku, 109 prósentum dýrara en í Noregi og 94 prósentum dýrara en í Svíþjóð.
Þó að verð í nágrannalöndunum sé ekki endilega mælikvarði á það hvað teljist góð kaup, er í það minnsta hægt að fá um það vísbendingu með því að bera saman verð á milli landa.
Heilt yfir er verð á sjónvarpstækjum miklu hærra hér en á hinum Norðurlöndunum. Inni á milli er þó hægt að gera góð kaup, eins og sést í þessari úttekt. DV hvetur neytendur til að vera á varðbergi og bera saman verð á raftækjum og öðrum neysluvörum, áður en í innkaup er ráðist. Það getur margborgað sig. Til þess má nota vefsíður á borð við prisjakt.no, prisjakt.se og pricerunner.dk. Þá sýnir úttektin að innanlands getur einnig verið mikill verðmunur á sömu vöru.