Hér landi er löng hefð fyrir að borða og drekka mikið um jólin og er þá ekki átt við áfenga drykki. Hangikjöt er án efa sá matur sem er á borðum flestra Íslendinga um jólin og mörgum þykir ekki skemma fyrir ef það er borið fram með uppstúf, kartöflum og grænum baunum. Rjúpur þykja sumum ómissandi á jólamatseðlinum og aðrir borða hreindýrakjöt, kalkún eða reykt svínakjöt. En eins og flest þá þróast matarvenjurnar og á síðari árum hefur orðið algengara að fólk prófi nýja rétti á þessum árstíma sem er annars fast tengdur við hefðir og venjur.
Þorláksmessa er auðvitað alveg sér á báti en þá kjósa margir að snæða kæsta skötu með tilheyrandi meðlæti. Líklega má telja skötuna með sem jólamat enda finnst mörgum hún algjörlega ómissandi á Þorláksmessu og finnst jólin ekki koma fyrr en vel kæst skata er komin á borð.
Í Noregi eru matarvenjurnar mismunandi á milli landshluta. Svínakjöt er vinsælt hjá sumum og þá sérstaklega purusteik. Með henni bjóða sumir upp á jólapylsu. Lambakjöt er á borðum hjá sumum og með því er oft boðið upp á ákveðnar pylsutegundir. Enn aðrir vilja soðinn þorsk, lútfisk eða þurrkaðan fisk en oft er síðan boðið upp á svína- eða lambakjöt þar á eftir.
Í Svíþjóð er hefð fyrir hlaðborði á aðfangadag. Það prýða heitir og kaldir réttir. Á því er oft jólaskinka, pylsur, kjötbollur (hvað er sænskara en kjötbollur?), síld, reyktur lax, grafinn lax, áll, ostar og fleira góðgæti. Jólaskinkan er nánast skylda á hverju hlaðborði og lútfiskur er einnig vinsæll.
Á dönskum heimilum eru mestar líkur á að purusteik sé á borðum á aðfangadag en endur og gæsir eru einnig vinsæll jólamatur. Brúnaðar kartöflur þykja nánast ómissandi með þessari mikilvægu máltíð.
Finnar eru hrifnastir af reyktu svínakjöti á aðfangadag og er það oft borið fram með soðnum grænum baunum auk annars grænmetis. Einnig er vinsælt að vera með hlaðborð í ætt við það sem frændfólkið í Svíþjóð er með. Rauðrófusalat, sveppasalat, síld, grafinn lax, kavíar og kæfur prýða það yfirleitt auk svínakjöts, hrísgrjónagrauts og lútfisks. Kalkúnn hefur síðan sótt í sig veðrið á undanförnum árum sem jólamatur hjá ættingjum okkar í Finnlandi.