Dagur íslensku brauðtertunnar er í dag. Brauðtertan hefur vitaskuld verið órjúfanlegur hluti af okkar menningu um árabil, eiginlegur þjóðarréttur og fastagestur í öllum góðum veislum en héðan í frá er 13. nóvember hampað sem Degi íslensku brauðtertunnar, en þetta er sama dagsetning og í Svíþjóð þar sem haldið er upp á Smörgåstårtans dag.
Íslandsmótið í brauðtertugerð fór fram í sumar, bæði í Reykjavík og á Akureyri, og þótti mótið takast mjög vel enda úrval keppnisterta fjölbreytt. Í dag var svo tilkynnt um hver það eru sem stóðu upp úr í þessari þjóðlegu keppni. Verðlaunaafhendingin fór fram í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík fyrr í dag þar sem gestum og gangandi gafst kostur á að gæða sér á afbragðs brauðtertum sem nemendur skólans höfðu gert. Útgáfu Stóru brauðtertubókarinnar var fagnað samhliða, en uppskriftir að verðlaunatertunum frá Íslandsmótinu er einmitt að finna í bókinni ásamt fjölda annarra girnilegra uppskrifta.
Verðlaunahafar eru:
Íslandsmeistarar: Guðmundur Kristinsson og tengdamóðir hans Svala Sveinbergsdóttir sem gerðu dásamlega fallega, bragðgóða og haganlega skreytta rækjutertu (Brauðterta purpurarrósarinnar)
Fallegasta brauðtertan: Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir fyrir himneska hangikjötstertu með skonsum (brauðterta skonsumeistarans)
Besta kampavínspörunin; Ingimar Flóvent Marinósson fyrir margskala túnfisktertu (brauðterta bakaradrengsins)
Frumlegasta brauðtertan: Berglind Ellý Jónsdóttir fyrir róttæka rækju- og ritzkextertu (brauðterta úr Hálsaskógi)
Bragðbesta brauðtertan: Magnús Ingi Björgvinsson fyrir ljúffenga rækjutertu (brauðterta hversdagshetjunnar)