fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Matur

Töfrar fram einn fallegasta páskaeftirréttinn sem sést hefur

Sjöfn Þórðardóttir
Laugardaginn 8. apríl 2023 11:00

Finnur Guðberg Ívarsson er nýkrýndur Íslandsmeistari ungra bakara. Hann hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir hæfileika sína í bakstri enda með eindæmum listrænn og vandvirkur. Hann býður hér lesendum upp á einn fallegasta páskaeftirréttinn sem sést hefur. DV/ANTON BRINK.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Finnur Guðberg Ívarsson er nýkrýndur Íslandsmeistari ungra bakara, aðeins 18 ára gamall. Einnig gerði hann og félagi hans sér lítið fyrir og hlutu fjórða sæti í heimsmeistarakeppni ungra bakara í Berlín í fyrra. Finnur hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hæfileika sína í bakstri og pastry gerð. Hann byrjaði mjög ungur á árum að vinna í bakaríi og fann ástríðu sína fljótt í bakstrinum. Hér er á ferðinni ungur og efnilegur bakaranemi sem við eigum eftir að sjá mikið af í framtíðinni.

Byrjaði 11 ára að vinna í bakaríi
Finnur var mjög ungur árum þegar hann vissi hvað hann vildi verða þegar hann væri stór. „Ég hugsa að það hafi verið þegar ég var svona 11 – 12 ára gamall eftir að mér bauðst vinna í Kökulist í Njarðvík, en ég hafði alltaf haft gaman af því að baka þegar ég var lítill. Ég vann fyrst bara á sumrin 3 ár í röð og svo eftir þriðja sumarið byrjaði ég að vinna um helgar með skóla og fór strax á samning eftir grunnskóla. Ég var fyrstu tvö árin af samningnum hjá Kökulist en fór síðan með samninginn í Bláa Lónið í maí á síðasta ári,“ segir Finnur

Aðspurður segist Finnur ekki vera alveg viss um hvað var það fyrsta sem hann bakaði. „Ég er ekki alveg viss en fyrsta minning um bakstur, sem er ljóslifandi, er með pabba að baka piparkökuhús sem var hefð hjá okkur feðgunum.“ Finnur segir að það hafi alveg komið fyrir að hann hafi bakað vandræði en það sé í raun besti skólinn. „Það kemur alveg fyrir öðru hverju, en þá þarf að muna að það er ein besta leiðin til að læra.“

Þegar kemur að því að gera kökuskreytingar og eftirrétti sem krefst meiri nákvæmni og nosturs nýtur Finnur sín allra best. „Mér finnst gaman að skapa, það er mikil listsköpun sem fylgir þessu fagi. Það er eitthvað sem ég vil gera mikið af, gera þessa listrænu útfærslur og gleðja bæði auga og munn.“

Nýkrýndur Íslandsmeistari og lenti í fjórða sæti í heimsmeistarakeppni
Nú ert þú nýkrýndur Íslandsmeistari ungra bakara, segðu okkur hvað þú þurftir að baka og framreiða fyrir keppnina? „Það átti að gera skrautstykki sem átti að vera 100*50*50 sentimetrar og allt gert úr ætum hráefnum. Svo átti að gera fjögur stykki i af matbrauðum og fjögur stykki af baguette. Einnig átti að gera fimm útfærslur af brotnu deigi, eins og croissant og vínarbrauðsdeig, átta af hvorri tegund. Svo átti líka að gera brioch stykki með matfyllingu (ekki sætabrauð).“ Það sem fylgir þessum glæsilega titil er að Finnur fær líka þann heiður að keppa fyrir Íslands hönd á Euroskils í Gdansk í september næstkomandi svo það eru spennandi tímar framundan hjá Finn. Síðan gerðu Finnur og félagi hans Matthías Jóhannesson sér lítið fyrir og lentu 4. sæti í heimsmeistarakeppni ungra bakara í Berlín í fyrra. Þá áttu þeir félagar líka að gera skrautstykki. „Svo áttum að við að gera tvær tegundir af brauði og gera tvö útlit úr hverju deigi. Í raun fjögur mismunandi útlítandi brauð í heildina og fjögur brauð af hveri tegund. Loks voru tvær tegundir af brotnu deigi, tvær tegundir af blautdeigi, sætabrauð úr sætu gerdeigi og loks fléttað brioch brauð.“

Framtíðin er björt hjá Finn og eftir sveinsprófið langar hann til að halda áfram að mennta sig og gera hluti sem hann hefur ástríðu fyrir. Metnaðurinn er mikill og hann langar að ná enn lengra í bakstrinum. „Mig langar að fara eithvað erlendis að læra pastry chef, mér finnst Frakkland mjög spennandi kostur til að læra meira enda eru Frakkar snillingar í pastry.“

Nú er páskahátíðin í fullum blóma og aðspurður segir Finnur að það séu ekki margar hefðir og siðir sem fylgja fjölskyldunni í matargerð og bakstri en þó sé eitt sem þau fjölskyldan séu ávallt með. „Við erum yfirleitt með grillaðan maríneraðan silung á páskunum en annars er engin önnur hefð í minni fjölskyldu nema að áður en amma mín féll frá fórum við oft til hennar að blása úr og mála hænuegg,“ segir Finnur og bætir við að það hafi verið afar skemmtileg hefð. Síðan sé það ómissandi hefð að leita af páskaeggjum á páskadag og þá helst úti ef veður leyfir.

Fallegasti páskaeftirrétturinn í ár
Í tilefni páskana ætlar Finnur að bjóða upp á dýrindis eftirrétt sem hann útbjó meðal annars fyrir sjónvarpsþáttinn Matur og heimili með Sjöfn Þórðar á dögunum sem má segja að krefjist natni. Finnur sviptir hér hulunni af þessum dýrindis eftirrétti, Éclair með hindberja ganas, sem er franskur og gleður svo sannarlega bæði auga og munn. Það má með sanni segja að þetta sé fallegasti páskaeftirrétturinn í ár.

Svo lumar Finnur líka á ákveðnum leynitrixum við gerð þessara dásamlega eftirréttar, Hindberja Éclair sem steinliggur á páskadag. „Áður en vatnsdeigið er sett inn í ofn fyrir baksturinn er leynitrixið að spreyja vatnsdeigið með fituspreyi og sigta flórsykri yfir fyrir bakstur til að þau haldist falleg í laginu og áferðin haldi sér. Síðan er það annað með pistasíukjarnana sem ég nota til að skreyta, það er að hreinsa skinnið af pistasíukjörnunum til að gera þá mýkri og fallegri fyrir augað.“

Éclair með hindberja ganas að hætti Finns

Hindberja ganas
100 g frosin hindber
25 g rjómi
200 g mjólkursúkkulaði

Rjómi og hindber látin sjóða upp og hellt yfir súkkulaðið og unnið saman með töfrasprota.

Pistasíukrem
50 g rjómi
50 g pistasíupaste
5 g salt
3 stk. matarlím (blöð)
125 g hvítt súkkulaði
300 g þeyttur rjómi

Matarlím lagt í kalt vatn í 10 mínútur og svo vatnið kreist af. Svo er rjóminn soðinn upp og hellt yfir restina og unnið saman með töfrasprota. Þetta er kælt niður í 40-50 gráður og svo foldað við þeyttan rjómann í nokkrum hlutum.

Vatnsdeig
125 g mjólk
125 g vatn
125 g smjör
8 g sykur
150 g hveiti
5 g salt
250 g egg

Mjólk, vatn, sykur og smjör látið sjóða og svo er hveitinu bætt við og hrært í, í um það bil 1 mínútu á meðan potturinn er ennþá á hellunni. Blandan er svo sett í hrærivél með spaðanum og eggjunum bætt við einu í einu. Deiginu er sprautað í um það bil 10-12 sentimetra lengjur og spreyjað með fituspreyi og sigtað yfir með flórsykri.
Bakað á 145°C hita við vægan blástur ef hægt er í um það bil 40-45 mínútur. Alveg harð bannað að opna bakarofninn fyrstu 35 mínúturnar, þá er hætta á að lengjurnar falli saman. Þetta er lykilatriði.

Samsetning

Þegar lengjurnar hafa kólnað er toppurinn af þeim skorinn af og settur ofan í og þær fylltar með hindberja ganas sem best er að setja í einnota sprautupoka og sprauta ofan í. Síðan er pistasíukreminu sprautað, einnig gott að nota einnota sprautupoka, ofan á hverja lengju, á fallegan og listrænan hátt. Loks eru lengjurnar toppaðar með hindberjum, fallegum pistasíukjörnum sem búið er að hreinsa og muldum hnetum. Berið fram á fagurlegan hátt og skreytið diskinn að vild. Vert er að láta hugmyndaflugið ráða för.

Gleðilega páska.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna