Dagana 8. til 11 mars verða Íslenskir dagar haldnir í Washington í Bandaríkjunum undir heitinu „Taste of Iceland„, þar sem boðið verður upp á mat, tónlist, kvikmyndir svo fátt sé nefnt. Íslensku dagarnir hófust í gær með pomp og prakt.
Mikið verður um dýrðir og metnaðurinn fyrir íslenskri matargerð verður í hávegum hafður. Verðlaunakokkarnir Viktor Örn Andrésson og Hinrik Örn Lárusson, matreiðslumenn og eigendur Lux veitinga, eru mættir til Washington og munu í samvinnu við matreiðslumanninn Matt Baker á Michele’s, bjóða upp á fjögurra rétta íslenskan matseðil. Vel var tekið á móti þeim og kynntu þeir meðal annars íslenska matarmenningu í bandaríska morgunsjónvarpinu á FOX í Washington.