Í upphafi nýrrar viku er ávallt gott að byrja á góðum og hollum graut sem dugar vel út daginn. Í upphafi árs deildi Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi með lesendum Fréttablaðsins uppskriftinni af sínum uppáhalds graut sem henni finnst mjög gott að byrja daginn á. Við á matarvefnum getum vel mælt með þessum graut enda er hann með eindæmum góður. Hann er útfærður á skemmtilegan hátt með tvisti sem kitlar bragðlaukana.
Uppáhalds grautur Margrétar
Grautarmix
2 dl hafrar
1 dl hempfræ
½ dl chia fræ
½ tsk. kanill
½ tsk. sjávarsalt
½ tsk. malaðar kardimommur
Þetta á ég í krukku tilbúið, þannig að ég þarf bara að bæta við heitu vatni og tvisti sem tekur enga stund.
Grautur með tvisti
1 ½ dl grautarmix í skál
2 dl heitt vatn bætt í skálina
Mögulega 1-2 litlum dökkum súkkulaðimolum laumað ofan í heitan grautinn
Látið bíða í 3-5 mínútur.
Tvist
Toppað með múslí, möndlusmjöri, smátt skornum epla- eða perubitum, slettu af grískri jógúrt eða kókósjógúrt. Stundum bæti ég frosnum hindberjum við og ef ég ætla að vera sérstaklega flott á því þá set ég þeyttan rjóma í staðinn fyrir gríska. Þessi grautur er prótínríkur og vel samsettur hvað varðar góða fitu á móti kolvetnum. Þannig að hann hefur góð áhrif á blóðsykurinn.