Nú er hægt að fá gómsætt Bónus súkkulaðipáskaegg með Bónusgrísnum fræga en hann er bara til í takmörkuðu upplagi. Eins og fram kemur í Fréttablaðinu í dag greinir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónuss, frá því að Bónusgrísinn frægi muni nú bregða sér í nýtt hlutverk sem safngripur á páskaeggjum verslunarinnar. Hann segir að hægt verði að safna mismunandi grísum ár eftir ár líkt og gert var með strumpafígúrurnar fyrir nokkrum árum.
„Grísinn verður í mismunandi útgáfum hvert ár og kemur hver grís í takmörkuðu upplagi. Við vissum fyrst ekki hversu vinsælt þetta yrði en nú kemur í ljós að þetta er söluhæsta páskaeggið í Bónus.“
Baldur segir að verðlag gæti vissulega spilað inn í söluna en stærsta Bónuseggið er rúmlega helmingi ódýrara en egg í svipaðri stærð frá samkeppnisaðilum. Hann telur samt sem áður marga laðast að grísnum sjálfum og vilja hann jafnvel enn frekar en súkkulaðið.
„Hann er náttúrulega skemmtilegur og líka ágætlega veglegur. Það er alveg óhætt að leika sér með hann án þess að hann skemmist. Grísinn er unninn úr plasti en hann er líka þungur og stendur á svona stalli sem fólk sér þegar búið er að taka súkkulaðið frá,“ segir Baldur.
Það ríkti þjóðarsorg þegar gamli Bónusgrísinn kvaddi Íslendinga en Baldur segir kostinn við nýja grísinn vera þann að auðveldara sé að leika sér með svipbrigði hans.
„Bónusgrísinn er í hjörtum Íslendinga og þó svo að okkur þyki rosalega vænt um þann gamla þá var hann pínu úr sér genginn greyið. Nýi grísinn hentar betur í svona verkefni að því leytinu til að það er hægt að glæða hann miklu meira lífi sem gerir hann jafnvel að enn skemmtilegri persónu og verður hann einstakari fyrir vikið.“