Ástralski stjörnukokkurinn Bill Granger er látinn aðeins 54 ára að aldri. Granger lést á sjúkrahúsi í London á jóladag eftir stutta baráttu við krabbamein.
Stjörnur á borð við Hugh Jackman, Gwyneth Paltrow, Nigella Lawson og Jamie Oliver er meðal þeirra sem hafa minnst Granger með hlýju á samfélagsmiðlum.
Granger opnaði sinn fyrsta veitingastað árið 1993 í Sidney og árið 2011 opnaði hann Granger & Co-veitingastað sinn í Notting Hill í London. Í dag eru fimm slíkir veitingastaðir í bresku höfuðborginni auk 14 veitingastaða í Ástralíu, Japan og Suður-Kóreu. Þá kom hann fram í sjónvarpsþáttum á borð við Masterchef Australia sem jók hróður hans mjög.
Granger, sem var sjálflærður í matseldinni, var sérstaklega þekktur fyrir áherslu sína á morgunverði og þegar fyrsti veitingastaður hans opnaði var avocado toast, ristað brauð með avókadó, á matseðlinum. Hefur Granger því verið kallaður guðfaðir réttarins einfalda sem nýtur mikilla vinsælda um allan heim.