Þetta er sósan sem gerði allt vitlaust á matarvef Fréttablaðsins á síðasta ári enda er þetta engin venjuleg sósa. Þú átt eftir að elska þessa og hún verður ómissandi með mörgum réttum.
Kóríandersósan er fullkomin með hvers kyns salötum, fiskréttum, falafel buffi eða falafel bollum, kjúklingi, mexíkóskum- og grænmetisréttum, ekki síst með taco. Í raun með hverju því sem ykkur finnst gott með kóríander, meira segja með grilluðu kjöti og fisk. Í þessari sósu eru engar mjólkurvörur né olíur og hún er glúten- og sykurlaus og án soja. Heiðarleg og meinholl sósa sem bragðlaukarnir elska.
Kóríandersósan ómótstæðilega
¾ bolli af hráum kasjúhnetum (lífræna enn betra)
½ bolli af ferskum kóríander laufblöðum
1 stk. hvítlaukur, marinn (þessir í körfunum)
½ bolli af vatni – eða eins og ykkur finnst þurfa
3 msk. af ferskum lime safa, kreista úr lime
2 -3 msk. af avókadó
½ tsk af fínu sjávarsalti
½ tsk af hvítlauksdufti
Byrjið á því að setja kasjúhneturnar í skál og hellið sjóðandi vatni yfir þær. Passið að vatnið nái yfir allar hneturnar. Látið liggja í vatninu í klukkutíma eða í volgu vatni yfir nótt. Hreinsið hnetur og hellið vatni af. Bætið síðan öllu hnetumaukinu og öðru hráefni í góðan blandara. Blandið vel. Ef hneturnar og hitt hráefnið er ekki að blandast nógu vel saman að þínum smekk þá má bæta örlitlu af vatni saman við. Berið sósuna fram í fallegri skál eða í glasi á fæti og skreytið með kóríanderblöðum. Hún verður fislétt og fallega fagurgræn á litinn.
*Allt hráefnið fæst í Bónus.