Þórunn Högna okkar einstaki stílisti hefur mikla ástríðu fyrir því að skreyta og gera fallegt kringum sig fyrir hvert tilefni og sérstaklega eftir árstíðum. Páskarnir sem eru boðberi vorsins eru engin undantekning og í ár fer Þórunn nýjar leiðir í litatónum. Nú er það fölbleikur og fjólublár sem ræður för í bland við náttúrulega liti og lifandi blóm.
Þórunn elskar páskana og segir páskafríið vera það besta við páskana. „Við förum alltaf í bústaðinn okkar, hlöðum batteríin, borðum góðan mat og njótum þess að vera saman.“ Aðspurð segist Þórunn halda í hefðir um páskana. „Við höldum fast í hefðina að fela páskaeggin fyrir yngstu dömuna. Höfum í gegnum árin haft páskaeggjaleit fyrir krakkana og höldum áfram með það, alltaf jafn skemmtilegt. Síðan borðum við stór fjölskyldan alltaf saman á páskadag.“
Ljósfjólublái liturinn heillaði í ár
Þórunn er ávallt með ákveðið þema í litum og efnisvali þegar kemur að því að skreyta fyrir páskana. „Ég fór aðeins út fyrir þægindarammann þegar ég gerði páskaborðið í ár. Lavender/ljósfjólublái liturinn heillaði mig svo svakalega. Svo fallegur með hvíta borðbúnaðinum. Ég er með mjög stórt hvítt marmaraborð og litirnir nutu sín einstaklega vel á því. Ég notaði mest fersk blóm og kerti, var ekki mikið með annað páskaskraut. Notaði litla blómapotta sem vasa, sem kom mjög skemmtilegt út. Keypti meðal annars tvö púðarver í HM Home sem ég breytti í tauservíettur. Síðan finnst mér falleg kaka alltaf ómissandi á páskaborðið. Mér finnst líka alveg ómissandi að hafa fersk blóm á páskaborðinu, nota alltaf blóm þegar ég skreyti borð.“
„Ég hef hingað til ekki heillast af fjólubláa litnum en mér finnst alltaf gaman að taka að mér nýjar áskoranir þegar kemur að skreytingum. Ég meira að segja gerði fjögurra hæða Lavender marengs köku. Er er mjög ánægð með útkomuna,“ segir Þórunn og brosir breitt.
Þegar kemur að því að velja fígúru eða dýr sem minna á páskana finnst Þórunni sum vera krúttlegri en önnur. „Mér finnst kanínur alltaf minna mig á páskana og svo er eitthvað krúttlegt við alla litlu páskaungana.“
Fjögurra hæða Lavender marengs kaka skartar sínu fegursta, en Þórunn heillast ávallt af háum kökum og skreytir hér með páskagreinum og rósum. Kökudiskurinn frá Margreti Jónsdóttur. Falleg páskakaka á borði settur punktinn yfir i-ið.
Þórunni gerði mini ostakökur í glasi og litaði ostakremið með fjólubláum matarlit kemur einstaklega vel út. Síðan skreytti hún með rósum og makkarónukökum.
Hvítu litlu blómapottarnir, hvítu skraut eggin og kerta eggin eru frá Magnoliu Öll blóm frá Blómaval. Hvíti plexi bakkinn lét Þórunn búa til fyrir sig hjá Fást. Glösin Frederik Bagger frá Epal. Hnífapör og diskamottur eru frá HM Home.