Albert Eiríksson matarbloggari og sælkeri með meiru hefur það fyrir hefð að vera ávallt með páskatertu og nú hefur hann frumsýnt páskatertuna sína í ár. „Bjartur litur og ferskt bragð eru góð leið til að fagna vorinu og gefa veislunni ofurlítið suðrænan blæ. Ætli megi ekki tala um sólríkt bragð af þessari mangótertu, enda er hún vinsæl hjá öllum, sem eru hrifnir af ístertum. Þetta er hollur eftirréttur eða kaffimeðlæti sem ekki þarf að baka, gott að bera hana fram hálf frosna, má ekki vera harðfrosin og ekki þiðin. Ljúffeng og fersk mangóterta,“ segir Albert og er farinn að hlakka til páskanna og kræsingana sem þeim fylgir. Hægt er að fylgjast með matarblogginu hans Alberts á síðunni hans Albert eldar.
Mangóterta – létt og frískandi
Botn
1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti í 10-15 mín)
1 bolli möndlur
1/2 bolli döðlur
1/4 tsk. sjávarsalt.
Fylling
2 stór þroskuð mangó, afhýdd og skorin í teninga
1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti í 10-15 mín)
3/4 bolli kókosrjómi
1/2 bolli kókosolía, brætt
1 msk hlynsíróp
Safi úr 1 sítrónu
1 tsk. vanilla.
Botn
Hellið vatninu af kasjúhnetum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt möndlum, döðlum og salti og maukið.
Þrýstið deiginu í botninn á springformi. Setjið mangó í matvinnsluvél ásamt kasjúhnetum (hellið vatninu af þeim), kókosrjóma, kókosolíu, sírópi, sítrónusafa og vanillu. Maukið þar til verður slétt og rjómakennt. Hellið fyllingunni yfir botninn og sléttið. Kælið kökuna í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt. Eða frystið hana og berið fram hálffrosna.
Njótið vel.