Í þættinum Mat og heimilum í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar hjónin Ingimar Sigurðsson og Svetlana Björg Kostic í eldhúsið. Þau eru bæði matgæðingar af Guðs náð og finnst fátt skemmtilegra en að elda og bjóða í matarboð.
Sjöfn fær innsýn í matarástríðu þeirra en heyrst hefur af matarboðunum þeirra og sælkeraréttum víða. Í tilefni heimsóknar Sjafnar framreiða hjónin tvo saltfiskrétti en það er hefð hjá Ingimar að elda árlega á sama degi og sama tíma saltfiskrétti fyrir ákveðinn matarklúbb. „Þessir réttir eiga sér sögu í gegnum matarklúbb sem ég setti á fót fyrir 30 árum. Þá elda ég 2-3 saltfiskrétti fyrir meðlimi, sem eru 8 auk þess sem einum heiðursgesti er boðið í hvert sinn,“ segir Ingimar og bætir við að hann útbúi ávallt nýja rétti fyrir hvert ár. „Réttirnir eru aldrei eins.“
Svetlana er mikill fagurkeri og leggur mikið upp úr framsetningu réttanna. „Við byrjum ávallt að borða með augunum og mér finnst mikilvægt að hafa réttina fallega og skreyta þá með grænu og ávöxtum,“ segir Svetlana. Sjöfn fær að smakka þessa dýrindis saltfiskrétti sem koma bragðlaukunum á flug.
Þegar þessi hjón eru saman í eldhúsin gerast töfrarnir. Saltfiskréttirnir sem þau töfra fram eiga vel við á föstudaginn langa en það er hefð hjá mörgum að borða fisk á föstudaginn langa fyrir páskahátíðina. Þó segjast þau ekki halda í neinar hefðir á páskunum og vera með pitsuveislu fyrir fjölskylduna á föstudaginn langa.
Matur og munúð í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld, klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins hér: