Keppnin um titilinn Kokkur ársins 2023 verður haldin 1. apríl næstkomandi í Ikea þar sem búast má við bestu kokkar landsins keppi sín á milli. Í fyrra vann Rúnar Pierre titilinn Kokkur ársins og starfar hann á ÓX í dag.
Eins og fram kemur á vef Veitingageirans þurftu keppendur að skila inn uppskrift og mynd af rétt til að komast í forkeppnina en skilafrestur var 15. mars síðastliðinn. Forkeppnin verður síðan haldin fimmtudaginn 30. mars. Hver uppskrift þurfti að innihalda bleikju, úthafsrækjur, rauðrófu, bygg og dill. Valnefnd, skipuð sex faglærðum dómurum, valdi nafnlaust þær uppskriftir sem þóttu lofa góðu þar sem mið var tekið af frumleika, nýtingu á hráefni, gæði ljósmyndar og útliti réttarins.
Nöfn keppenda sem komust áfram í forkeppnina Kokkur ársins 2023 eru eftirfarandi:
Gabríel Kristinn Bjarnason – Dill restaurant – Ísland.
Hinrik Örn Lárusson – Lux veitingar – Ísland.
Hugi Rafn Stefánsson – Lux veitingar – Ísland.
Iðunn Sigurðardóttir – Brand Hafnartorg Gallerí – Ísland.
Ísak Aron Jóhannsson – Zak veitingar – Ísland.
Sindri Guðbrandur Sigurðsson – Flóra veitingar – Ísland.
Snædís Xyza Mae Ocampo – Ion Hotel – Ísland.
Sveinn Steinsson – Efla Verkfræðistofa – Ísland.
Wiktor Pálsson – Speilsalen – Noregur.
Til mikils er að vinna, en Kokkur ársins 2023 er besti kokkur landsins árið 2023 og hlýtur þátttökurétt fyrir Íslands hönd í Nordic Chef of the Year 2024. Jafnframt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin:
1. sæti – 300.000 kr.
2. sæti – 200.000 kr.
3. sæti – 100.000 kr.
Forkeppni verður haldin í Ikea þann 30.mars og úrslit verða þann 1. apríl, þá verður Kokkur ársins kunngerður með pomp og prakt. Það er Klúbbur matreiðslumeistara sem hefur veg og vanda að keppninni. Það er ljóst að keppnin í ár verður æsispennandi og mikið verður um dýrðir í matargerðinni.