Albert Eiríksson matarbloggari og matgæðingur með meiru er iðinn við að safna að sér ljúffengum uppskriftum hjá vinum og vandamönnum. Síðan deilir Albert þeim áfram á bloggsíðuna sína Albert eldar. Stundum þarf hann ekki að leita langt eftir sælkera uppskriftum því í fjölskyldunni hans eru margir matgæðingar sem galdra fram dýrindis veitingar í fjölskylduboðum og veislum. Hér kemur ein dýrðleg samsetning og ljúfmeti úr smiðju systurs Alberts.
„Bakaðar perur er réttur sem kemur verulega á óvart, alveg sjúklega góð samsetning. Perurnar voru í boði ásamt fleiri góðum veitingum hjá Árdísi systir minni,“ segir Albert sem missti sig yfir þessum ljúffenga rétti sem er sáraeinfaldur.
Perur með gráðosti og pekanhnetum
1 stk. vel þroskuð pera
Gráðaostur eftir smekk
Pekanhnetur eftir smekk
Hlynsíróp (Maplesíróp)
Skerið peruna í tvennt að endilöngu, takið kjarnann úr, setjið peruna í eldfast mót. Setjið mulinn gráðost og gróft saxaðar pekanhnetur í holuna þar sem kjarninn var. Setjið hlynsíróp yfir. Hitið í ofni við 180° C í 20 mínútur. Berið fram með góðu kexi eða baguette brauði.