Matarhátíðin Food & Fun nær hátindi í dag, laugardag, og krásirnar sem boðið er upp á eru ómótstæðilega girnilegar hvert sem litið er. Borgin og Garðabærinn iða af lífi þessa dagana þar sem matarmenningin er í hávegum höfð og ilmurinn streymir um göturnar.
Meðal þeirra staða sem matarvefurinn heimsótti í tilefni af hátíðinni er Duck & Rose, sem er staðsettur á einu flottasta horni hjarta miðborgarinnar við Austurvöll. Gestakokkurinn Jesse Miller frá Washington og Margrét Ríkharðsdóttir matreiðslumeistarinn á staðnum leiða saman krafta sína með glæsilegri útkomu.
Létt og heiðarleg matargerð með ítölsku ívafi
Bakgrunnur Jesse er í listageiranum þar sem hann var á góðri leið að verða atvinnulistmálari þegar ástríðan á mat og lífið í eldhúsinu dró hann til sín og þá var ekki aftur snúið. Síðan þá hefur listamaðurinn í honum fengið útrás í eldhúsinu þar sem hann var til að mynda á bak við hinn vinsæla veitingastað Bar Pilar í Washington D.C. Matreiðsla Jesse á Bar Pilar sækir innblástur frá nærliggjandi sveitum og birgjum með áherslu á ferska, árstíða- og staðbundna vöru. Réttirnir eru einfaldir en jafnframt ævintýralegir og breytast í takt við framboðið hverju sinni, sem er einmitt hluti af ævintýrinu á Duck & Rose þessa dagana. Áherslan er á létta og heiðarlega matargerð, með áhrifum frá Ítalíu.
Ævintýralegur matseðill
Food & Fun matseðillinn á Duck & Rose er hinn ævintýralegasti fyrir bragðlaukana og með ítölsku ívafi. Fyrst var boðið upp á kjúklinga parfait með stökku kjúklingaskini, sýrðum skalotlauk á brioche brauðið sem bráðnaði í munni. Áferðin og bragðið ljúft undir tönn.
Næsti réttur kom skemmtilega á óvart með nýja samsetningu á brögðum á ítalska vegu. Stracciatella með bottarga, ferskjum, maríneruðum tómat, myntu og fennel salsa verde. Myntan og fennelið kom bragðlaukunum á flug.
Síðan varð það ekta ítalskur pastaréttur, cacio e pepe með svörtum trufflum og fennel salsiccia pylsu. Trufflurnar voru algjört sælgæti og toppuðu réttinn. Trufflur og pasta er hin fullkomna samsetning fyrir sælkerann.
Kálfa ribeye, beinmergur, kremaðir sveppir og swiss chard var stóri rétturinn sem kveikti matarástina enn frekar. Kálfurinn og meðlætið spilaði fallega saman fyrir öll skynfærin.
Matarupplifunin var síðan toppuð með eftirréttinum með nýstárlegri samsetningu, ólífuolíu kaka með kardimommuís, maríneruðum og þurrkuðum jarðarberjum og pistasíu kexi.
Jesse, Margréti og teyminu á Duck & Rose hefur tekist einstaklega vel til með matseðilinn sem býður svo sannarlega upp á sælkera ferð þar sem íslenskt hráefni er í hávegum haft og útfært að ítalska vísu sem gleður öll matarhjörtu. Matur og munúð á vel við þegar Food & Fun er annars vegar og spennandi að prófa fleiri staði þar sem stjörnukokkar leika listir sínar.