Valentínusardagurinn er dagur helgaður ástinni sem haldinn er hátíðlegur á messudegi heilags Valentínusar 14. febrúar ár hvert. Blóm og gjafir eru vinsælar gjafir og súkkulaði er eitt af því sem er táknrænt fyrir ástina.
Við mælum með þessari unaðslega ljúffengu Djöflatertu í tilefni Valentínusardagsins í dag, dags elskenda. Annaðhvort er það ískalt mjólkur glas með eða freyðandi búbblur. Það er svo unaðslegt að tjá ást sína með súkkulaði og toppa með jarðarberjum. Uppskriftin kemur úr smiðju ömmu umsjónarmanns matarvefjarins og hefur verið nostalgíu kakan í stórfjölskyldunni í áranna rás.
Unaðslega ljúffeng Djöflaterta að hætti ömmu
1 ½ bolli hveiti
1 ¼ bolli sykur
½ bolli kakó
1 ¼ tsk. matarsódi
¼ tsk. salt
2/3 bolli mjólk (má vera laktósafrí)
2/3 bolli íslenskt smjör
1 tsk. vanilludropar
2 meðalstór egg
1/3 bolli mjólk
Djöflatertukremið
345 g flórsykur
2 msk. kakó dökkt
120 g íslenskt smjör
1 stk. egg
Hitið ofninn í 200°C hita og smyrjið miðlungs stórt form og sáldrið hveiti yfir allt formið og bankið lausa hveitið úr. Setjið til hliðar meðan hráefnið er að blandast saman. Setjið fyrst saman í skál öll þurrefnin, hveiti, sykur, kakó, matarsóda og salt. Hrærið vel saman. Síðan setjið 2/3 bolla af mjólk (ekki alla mjólkina strax, þess vegna er hún skráð í tveimur hlutum), smjörið og vanilludropana og hrærið vel saman. Loks setjið þið eggin ásamt 1/3 bolla af mjólk og hrærið vel. Hellið í formið og tryggið að deigið liggi jafnt í forminu. Bakið í miðjum ofni í 30-40 mínútur eða þar til þið sjáið að kakan hefur losnað frá kantinum. Getið notað prjón og stungið í og sjáið ef hann kemur hreinn út þá er kakan tilbúin. Takið kökuna úr forminu á þann disk sem þið ætlið að bera hana fram á og látið kólna áður en kremið er smurt á.
Djöflatertukremið þeytt saman
Þegar kakan hefur kólnað þeyttum við kremið. Setjið saman flórsykur, kakó, smjör og egg og þeytið vel saman þar til kremið er orðið þétt og slétt í sér, kekkjalaust. Smyrjið kremið ofan á kökuna og skreytið að hjartans list. Berið Djöflatertuna fram með þeyttum rjóma, jarðarberjum og hvað eina sem bragðlaukarnir girnast. Súkkulaðiástin mun blómstra.