Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tók á móti fyrstu Köku ársins 2023 í gær. Landssamband bakarameistara efndi venju samkvæmt til árlegrar keppni um Köku ársins. Sigurvegari keppninnar var Guðrún Erla Guðjónsdóttir en hún kom, sá og sigraði keppnina um Köku ársins að þessu sinni. Kaka ársins er Doré karamellu-mousse með passion-kremi og heslihnetumarengsbotni.
Þegar Guðrún Erla er beðin um að lýsa kökunni í Fréttablaðinu í dag stendur ekki á svörum: „Botninn er léttur marengs með heslihnetum, og ofan á hann fer stökkt crumble sem er búið til úr kex kurli og mjólkursúkkulaði. Síðan kemur frískandi ástaraldin krem, og ofan á það kemur karamellu súkkulaði ganache með ástaraldin. Dóre karamellumúsin er svo utan um allt þetta, og að lokum er kakan hjúpuð með gull glaze sem gefur kökunni þetta fallega gyllta útlit,“ segir Guðrún Erla.
Sala á kökunni hófst í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara um allt land á gær fimmtudaginn 9. febrúar í tilefni af Valentínusardegi sem er næstkomandi þriðjudag. Kaka ársins verður til sölu það sem eftir er ársins.