Haustið er skollið á með öllu tilheyrandi og skólarnir komnir á fullt. Á þessum árstíma eru flest heimili að koma sér aftur í fasta rútínu og fjölskyldur að skipuleggja nestið sitt og millimál. Ekkert er betra en að byrja á góðri næringarbombu í glasi auk þess væri gott að taka slíka með sér í vinnuna eða í skólann.
Berglind Hreiðars köku- matarbloggari á Gotterí og gersemar er ótrúlega iðin við að útbúa alls konar drykki og nesti saman sem gleður bragðlaukana og gefa okkur auka orku. Hún á heiðurinn af þessari dásamlegi næringarbombu í glasi sem er líka hægt að setja í krukku eða brúsa og kippa með sér.
Næringarbomba í glasi
2-3 glös eftir stærð
600 ml Innocent kókosvatn
300 g frosin jarðarber
1 banani
70 g kasjúhnetur
20 g ristaðar kókosflögur
2 tsk. hunang/síróp (má sleppa)
Setjið allt í blandarann, blandið vel og hellið í glös. Hægt er að taka drykkinn með í nesti til dæmis í brúsa, krukku með loki eða öðru sem ekki hellist úr.