Hér er á ferðinni dásamlega góður og djúsí kjúklingaréttur sem ofureinfalt er að gera. Hér leika sveppirnir, rjómaosturinn og hvítlaukur aðalatriði þegar það kemur að brögðunum. María Gomez lífsstíls- og matarbloggari sem heldur úti bloggsíðunni Paz.is á heiðurinn af þessum djúsi kjúklingarétti sem bráðnar í munni. Einfalt og gott á fimmtudagskvöldi til að njóta.
Kjúklingaréttur í rjómaosta- og sveppasósu
500 g sveppir
1 poki kjúklingalundir
1 stk. villisveppa kryddostur
4 marin hvítlauksrif
500 ml matreiðslurjómi
1-2 tsk. þurrkað timian
1 tsk. fínt borðsalt
½ tsk. gróft malaður svartur pipar
1 tsk. Oscar kjúklingakraftur í dufti
1 ½ msk. Maizena sósujafnari
Byrjið á að skera sveppina í 4 parta hvern svepp eða 2 parta ef sveppirnir eru smáir. Setjið næst kjúklingalundirnar, í heilu lagi, í stórt eldfast mót. Saltið lundirnar og piprið og setjið kjúklingakraftinn yfir og hrærið saman með skeið. Setjið næst sveppina yfir og þurrkað timian. Raspið niður villisveppaostinn og dreifið yfir lundirnar og sveppina ásamt mörðum hvítlauknum. Hellið svo matreiðslurjómanum yfir og stingið í 210°C heitan ofninn i 25 mínútur.
Þegar 25 mín eru liðnar takið þá mótið út og dreifið maizena sósujafnara yfir allt og stingið aftur inn í 10 mínútur. Þegar rétturinn er tekinn út er gott að hræra aðeins í honum þar til allt er vel blandað saman og sósan verður þykk og góð. Berið fram með grjónum eða cous cous og fersku salati.
Njótið vel.