fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Matur

Ómótstæðilegur helgarmatseðill í boðið Maríu Gomez

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 25. mars 2022 10:08

María Gomez er annálaður fagurkeri og nautnaseggur og býður lesendum upp á ómótstæðilegan helgarmatseðil þessa helgina. MYNDIR/MARÍA GOMEZ.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífsstíls- og matarbloggarinn María Gomez á heiðurinn af helgarmatseðlinum að þessu sinni og ber hann keim að því að það er vor í lofti. María er annálaður fagurkeri og nautnaseggur sem hefur mikla ástríðu fyrir því að framreiða ljúffenga rétti og prófa sig áfram með nýjar uppskriftir sem gleðja bæði auga og munn. Hún leggur áherslu á að bera matinn fallega fram og gera matarupplifunina spennandi. Allar myndirnar af réttunum tekur hún sjálf og þær fanga svo sannarlega augað og kalla á hungrið. Á heimasíðu hennar Paz.is er að finna allar uppskriftirnar hennar og það eru sannkallað augnakonfekt.

Þegar við leituðum til Maríu með helgarmatseðilinn brást strax jákvætt við, full áhuga og tilhlökkunar að velja sínar uppáhalds uppskriftir úr smiðju sinni sem hafa slegið í gegn.

María gefur lesendum uppskriftir fimm aðalréttum, geggjuðum brönslokum og tveimur uppskriftum af dýrðlegu góðgæti með helgarkaffinu sem má líka nota sem eftirrétti.

Á föstudagskvöld er upplagt að vera með pitsakvöld og bjóða upp á dýrðlegar ostastangir með sem enginn verður svikinn af. María býður okkur hér upp á tvær guðdómlega girnilegar pitsur sem enginn stenst.

Föstudags – Pitsan

Tilbúið pitsadeig, ég notaði súrdeigs

1 krukka döðlusulta frá pesto.is

Rifinn mozzarella ost magn eftir smekk, ég notaði þunnt lag af honum

1 stór kúla af ferskum mozzarella osti

Rifinn parmesan ostur eftir smekk

1 lítið bréf beikon

Smá púðursykur

5 stk. smátt skornar döðlur

Kryddkurl frá pesto.is

Rauðlaukssæla frá pesto.is

Klettasalat val til að setja ofan á eftir á

Ostabrauðstangir

Tilbúið pitsadeig að eigin vali, ég notaði súrdeigs

Rucola pestóið Fjallkonumær frá pesto.is

Rifinn mozzarella ostur eftir smekk

Rifinn parmesan ostur eftir smekk

Pitsan

Hitið ofninn á það allra heitasta sem hann kemst í á blæstri. Fletjið pitsadeigið út og smyrjið á það döðlusultunni eins og þið væruð að nota pitsasósu (ekki nota pitsaasósu samt og ekki forbaka deigið). Setjið næst rifna mozzarella ostinn yfir og skerið ferska ostinn í þunna hringi og setjið ofan á rifna ostinn. Takið næst beikon og klippið í tvennt, krullið það svo með því að snúa sinnhvorn endanum í sitthvora áttina og leggið þannig á pitsuna. Stráið svo ögn af púðursykri yfir beikonið sjálft. Setjið næst rauðlaukssæluna á hér og þar á milli beikonsins og smátt skornu döðlurnar. Sáldrið svo kryddkurlinu yfir allt, ásamt parmesan ostinum. Stingið í ofninn en tíminn fer eftir hita á ofninum svo best er að fylgjast bara með pitsunni.

Ostabrauðstangir

Fletjið deigið út í stuttan ferning. Smyrjið svo pestóinu yfir ferninginn og stráið rifnum mozzarella yfir. Lokið svo ferningnum eins og bók og penslið ofan á hann þunnu lagi af pestóinu og stráið smá mozzarella og rifnum parmesan osti yfir. Bakið með pitsunni í ofninum svo þær verði til á sama tíma. Skerið svo eins og gert er við brauðstangir eða í eins og 5 sentimetra lengjur.

Humarpitsan ómótstæðilega

Deig frá Humlum að eigin vali

2 geiralausir hvítlaukar eða 6-8 hvítlauksrif marin

1 dl ólífuolía

1 tsk. þurkkuð steinselja

½  box sveppir eða um 125 g

1-1,5 bolli rifinn parmesan sem þið rífið sjálf ekki kaupa þennan í boxunum

1 poki rifinn pizzaost eða rifinn mozzarella ost

400-500 g humar, ég keypti frosinn í Bónus frá Norðanfiski sem var skelflettur

Ferskt oreganó eða ferskt timian í potti (fæst í pakka eins og aðrar kryddjurtir eða í potti) notið helst ferskt

Salt eftir smekk

Roasted garlic pepper (má sleppa en gerir rosa gott, fæst í Bónus)

Chili Explotion (má sleppa en fæst í Bónus)

Byrjið á að kveikja á ofninum á 200°C blástur. Gerið deigið klárt, mér finnst best að taka það úr pakkanum og hvolfa á bökunarplötu með nýjum bökunarpappír á og taka gamla pappann sem fylgdi pakkanum ofan af og henda. Leyfið deiginu að standa á plötunni undir hreinu stykki meðan allt hitt er gert klárt. Setjið svo ólífuolíu, marinn hvítlaukinn og steinselju í skál og leggið til hliðar. Ef þið eruð ekki búin að afþíða humarinn er allt í lagi að setja hann í sigti og láta sjóðandi heitt vatn renna á hann þar til hann er rétt afþíddur, en best er að vera búin að leyfa honum að þiðna í kæli yfir nótt. Takið svo humarinn og setjið hann ofan á eldhúsbréf og þerrið af honum með meira eldhúsbréfi þar til mesti rakinn er farinn úr honum því annars verður pitsan rennandi blaut. Rífið niður parmesan ostinn og skerið sveppina í sneiðar. Stingið nú nokkur göt í botninn og forbakið í 5 mínútur. Penslið svo pitsabotninn vel yfir hann allan með hvítlauksolíunni og leyfið smá mörðum hvítlauknum að fylgja með, en þó ekki of mikið. Dreifið næst rifna pitsaostinum yfir og setjið svo sveppina þar ofan á. Raðið humrinum yfir sveppina og penslið létt yfir aftur með hvítlauksolíunni og kryddið með Roasted garlic pepper og örlítið af salti. Stráið svo að lokum rifna parmesan ostinum yfir allt og toppið með fersku oreganó og Chili Explotion. Bakið á 235°C blæstri í 8-10 mínútur eða þar til pitsan er orðin fallega gyllt.

Um helgar er svo dásamlegt að vera með bröns og njóta góðrar samveru. Hér eru á ferðinni geggjaðar brönslokur, svo girnilegar að horfa á og enn betri að njóta.

Geggjaðar brönslokur

4 hamborgarabrauð (ég notaði kartöflubrauð og hægt er að nota líka brioche brauð)

7 egg

2 msk. rjómi

salt og pipar

300 g  beikon

4 cheddar ostsneiðar

lambhagakál í potti

3 stk. bufftómatar

Sósan

2 dl Heinz majónes

½  tsk. sítrónusafi úr ferskri sítrónu (helst ekki úr belg)

½  tsk. grófmalaður svartur pipar

½  tsk. fínt borðsalt

2 msk. ferskur graslaukur smátt klipptur

Byrjið á að gera sósuna með því að hræra öllum innihaldsefnum vel saman og klippa niður graslaukinn ofan í og hræra. Hitið svo ofninn á 200°C og setjið beikon á bökunarplötu með bökunarpappír á, mér finnst mjög gott að krulla það með því að snúa sitthvorn endanum í öfuga átt og strá svo púðursykri yfir það en því má sleppa. Eldið í ofni þar til beikonið er stökkt og djúpur litur kominn á það. Gerið eggjahræru á meðan með því að hræra saman eggjunum, rjómanum og salta og pipra eftir smekk. Mér fannst gott að hræra sem minnst í hrærunni og gera svona millistig af ommelettu og eggjahræru sem ég skar svo í 4 sneiðar til að setja á hvert brauð. Setjið nú brönslokuna saman með því að setja graslauksmajónes á botninn, svo kemur cheddar sneið, kálblað, tómatur, eggjahræra og beikon efst ofan á

Smyrjið nú lokið af brauðinu líka vel með graslauksmajó og setjið í ofn við 180°C í um það bil 3-5 mínútur eða þar til osturinn er aðeins bráðinn.

María mælir síðan með þessum dásamlegu djúpsteiktu rækjum sem gerðar eru eftir leyniuppskriftinni hennar í aðalrétt. Þessi réttur er kærkominn á laugardagskvöldi. Síðan mælir hún líka með mexíkósku kjúklingasalati með kínversku ívafi og BBQ tvister með piparmajó í aðalrétt sem smellpassa báðir tveir fyrir sunnudagskvöldverð og minna á að vor er í lofti.

Leyniuppskrift af djúpsteiktum rækjum

350 g risarækjur

2 pokar Tilda masmati grjón

1,5 l grænmetisolía

Orlýdeig

150 g hveiti

75 g maizena mjöl (ekki sósu þykkir heldur sem stendur majsstivelse og er í gulum kassa)

½  tsk. fínt borðsalt

1 tsk. lyftiduft

smá pipar

1 tsk. sykur

1 msk. fiskisósa (ég notaði frá Blue Dragon)

2 dl pilsner

Súrsæt sósa

1 dl Hunts tómatsósa (ketchup)

2 dl vatn

70 g sykur

klípa af salti

Verið búin að afþíða rækjurnar áður en þið hefjist handa. Byrjið á að setja allar rækjurnar á eldhúspappa til að taka allan raka úr þeim og dempið þær líka með eldhúspappír. Takið svo halann af með því að toga í endann á honum og halda fast um neðsta part rækjunnar. Setjið næst hrísgrjónin í pott og saltið vel og látið sjóða í 12 mínútur. Gerið næst orlýdeigið með því að blanda öllum hráefnum saman og hræra mjög vel, setjið svo til hliðar meðan súrsæta sósan er útbúin. Setjið allt sem á að fara í súrsætu sósuna saman í pott og látið byrja að sjóða og hrærið vel. Sjóðið í eins og 1 mínútu og leggið til hliðar. Setjið næst olíuna á djúpa pönnu með þykkum botni eða stóran pott með þykkum botni og hitið á hæsta styrk (má líka notast við djúpsteikingarpott auðvitað ef þið eigið). Setjið næst eins og 5-6 rækjur í einu út í deigið og passið að drekkja þeim alveg í deiginu. Þegar olían er orðin heit veiðið þá hverja rækju upp úr deiginu með matskeið og hafið vel af deigi með og setjið út í olíuna svona eins og 5-6 í einu. Setjið svo steiktar rækjur á disk með eldhúspappa á til að öll aukaolía farið í pappann. Berið svo fram með grjónunum, sojasósu og súrsætu sósunni en ekki hella henni yfir rækjurnar áður en þær eru bornar fram. Notið hana bara til að dýfa í.

Hér eru svo tveir réttir sem báðir innihalda kjúkling. Heilsteiktur kjúklingur var vinsæll sunnudagsréttur á eitístímabilinu svokallað og í dag eru til fjöldinn allur af spennandi réttum þar sem kjúklingur kemur við sögu. Báðir þessir réttir eiga vel við í kvöldverð.

Mexíkóskt salat með kínversku ívafi

½  iceberg haus

1 dl gular baunir

2 kjúklingabringur

1 dl fetaostur í olíu

1 dl salsa sósa

1 dl sýrður rjómi

1-2 dl Blue Dragon sweet chili sósa

1 avókadó

Nachos eftir smekk

salt, pipar og kjúklingakrydd eftir smekk

Það er hægt að gera salatið á einn stóran disk eða á sitthvorn diskinn. Byrjið á að steikja bringurnar þunnt skornar í  bitum upp úr ólífuolíu og saltið piprið og kryddið með ykkar uppáhalds kjúklingakryddi. Rífið svo þvegið iceberg á disk eða sitthvorn diskinn og setjið nýsteiktar bringurnar ofan á kálið. Setjið svo gular baunir, avókadó og fetaost yfir og inn á milli kjúklingsins. Dreifið svo salsasósu yfir allt og setjið sýrðan rjóma inn á milli í doppum

Hellið svo sweet chili sósunni yfir að lokum og myljið nachos snakki yfir allt heila klabbið.

BBQ tvister með piparmajó

800 g úrbeinuð læri

6 bollar mulið kornflakes

½  bolli hveiti

4 egg

2 tsk. salt

2 tsk. cayenne pipar

2 tsk. þurrkað timian

1-2 pakka af Mission Wraps með grillrönd

2 bollar af Classic eða Sweet BBQ sósu frá Heinz

Lambahaga kál í potti

1 box kirsuberjatómata

Cooking sprey

Piparmajónessósa

2 dl majónes

2 tsk. sítrónusafi beint úr ávextinum

1 tsk. svartur pipar

½  tsk. borðsalt

Setjið hveiti í eina skál og mulið kornflakes í aðra. Hrærið eggjunum saman ásamt 2 tsk. salt, 2 tsk. cayenne pipar og 2 tsk. þurrkað timian í þriðju skálina. Hitið ofninn á 210°C  á blæstri. Skerið svo kjúklinginn í minni bita, eins og langa gúllasbita. Byrjið á að velta kjúklingnum fyrst upp úr hveiti, svo eggi og að lokum upp úr kornflakesi. Raðið bitunum á ofnplötu með bökunarpappa og spreyið á pappann með Cooking spreyi. Setjið svo í ofn í 25-30 mínútur og útbúið grænmetið og piparmajónessósuna á meðan. Skerið tómatana í pínulitla bita (svona eins og er í salsasósum), skerið svo kálið.

Í piparmajónessósuna er öllu hrært saman þ.e majónesi, pipar, salti og sítrónusafa

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er BBQ sósu hellt yfir hann á bökunarplötunni og hrært vel saman (má sleppa ef þið viljið ekki BBQ). Síðan er vefjan sett saman með því að smyrja á hana piparmajó, setja svo kál og tómata og að lokum kjúklinginn og rúlla upp.

Loks mælir María með þessum syndsamlega ljúffengu góðgæti með helgarkaffinu sem vel má líka hafa sem eftirrétti. Hér eru á ferðinni Churros con chocolate á spænska vísu sem láta engan ósnortin og geggjuð Oreo rúlluterta með rjómaostakremi og súkkulaðihjúp sem ber þig á hæstu hæðir.

Churros con chocolate á spænska vísu

250 ml vatn

55 g ósaltað smjör

1 msk. sykur

¼  tsk. salt

140 g hveiti

1 stórt egg

½ tsk. vanilluextract eða vanilludropar

1 l grænmetisolía

Sykur til að velta upp úr

½  bolli sykur

¾  msk. kanill

Súkkulaðið með Churrosinu

100 g 70 % súkkulaði

1 dl rjómi

klípa af salti

Churroið

Byrjið á að hræra saman sykurinn og kanilinn sem á að fara utan á og setjið á matardisk. Nú byrjum við á sjálfu churrosinu. Vatn, smjör og sykur er sett saman í pott og látið byrja að sjóða, lækkið þá hitann niður í miðlungshita. Bætið svo hveitinu út í pottinn smátt og smátt og hrærið vel í á meðan, mjög svipað og þegar maður gerir vatnsdeigsbollur. Færið nú deigið yfir í skál og látið kólna í eins og 5-10 mínútur við opinn glugga. Bætið svo vanillu og eggi við í skálina og byrjið strax að þeyta með handþeytara, þar til deigið er orðið silkimjúkt og vel þjappað saman í kúlu. Setjið deigið í sprautupoka með frekar stórum stjörnustút. Mér finnst best að sprauta svo deigi á smjörpappa í lengjur og klippa í kring um hverja lengju svo hver og ein fái sinn pappa. Hitið nú olíuna á djúpri pönnu og setjið smá deig út á til að vita hvort hún sé heit. Þegar hún er orðin heit lækkið þá ögn undir henni, ekki mikið bara aðeins. Setjið nú eins og 3-4 lengjur á smjörpappa út á olíuna og takið pappan með töng strax af, mjög þægilegt að gera þetta svona svo slettist ekki á mann olía. Þið getið farið inn á instagrammið mitt @paz og séð hvernig ég geri þetta undir highlights. Steikið þar til þeir eru orðnir vel gyllinbrúnir og passið að hafa þá nógu lengi svo þeir verði ekki hráir inn í. Setjið þá svo ofan á disk með eldhúspappír til að taka af alla auka olíu. Að lokum er þeim svo velt upp úr sykurblöndunni.

Súkkulaðið

Setjið allt saman í pott og hrærið stöðugt í meðan súkkulaðið er að bráðna.

Berið svo fram heitt með churrosinu.

Geggjuð Oreo rúlluterta með rjómaosta vanillukremi og súkkulaðihjúp

Kökubotninn

350 g oreo kex

200 g Philadelphia light

Kremið

100 g mjúkt smjör

260 g flórsykur

50 g Philadelphia Light

1 tsk. vanilludropar

Hjúpur

200 gr hreint Milka súkkulaði bráðið

Kökubotninn

Setjið allt kexið í blandara og malið í fínt duft. Færið næst yfir í hrærivélarskál og bætið 200 g af rjómaostinum út í. Hrærið vel saman þar til er orðið að klístruðu deigi og allt vel blandað saman. Setjið deigið á disk með filmuplasti yfir og kælið í eins og 30 mínútur, má vera lengur, og gerið kremið til á meðan.

Kremið

Byrjið á að þeyta mjúkt smjörið í smá stund. Bætið næst flórsykri, vanillu og rjómaosti út í og aukið hraðann. Þeytið þar til kremið er orðið vel ljóst og loftkennt gæti tekið alveg 5-7 mínútur og látið standa á borði þar til það er sett á kökuna.

Samsetning

Takið deigið úr kælir og setjið það ofan á smjörpappa. Leggið aðra örk af smjörpappír yfir og fletjið það út á milli pappanna með kökukefli í eins og 1 cm þykkan ferning. Takið efri pappann af og smyrjið næst kreminu yfir ferninginn og skiljið eftir án krems eins og cm frá köntunum. Rúllið svo kökunni upp með því að nota pappírinn sem er undir, þið togið í endann næst ykkur og rúllið upp með því að halda alltaf í endann meðan þið rúllið. Setjið næst upprúllaða kökuna með kreminu á inn í fyrstir og á meðan er gott að bræða súkkulaðið. Bræðið 200 g Milka súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið því svo yfir kökuna og smyrjið vel yfir hliðarnar líka. Leyfið súkkulaðinu ögn að storkna á kökunni upp á borði eða við opinn glugga. Þegar súkkulaðið hefur storknað aðeins, þá er gott að setja kökuna í frystir í lágmark 30-60 mínútur áður en hún er borin fram. Geymið kökuna ávallt í frysti og berið fram frosna, þannig er hún langbest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna