Bónus hefur í samstarfi við Gæðabakstur hafið sölu á afgangs laufabrauði í formi fuglafóðurs. Markmiðið er að sporna gegn matarsóun, draga úr rýrnun og minnka sorp. Eins og fram kemur á vef Fréttablaðsins í dag er um að ræða laufabrauð sem seldist ekki fyrir síðustu jólahátíð. Því hefur verið endurpakkað í 1,5 kg pakkningar og dreift í valdar Bónus verslanir, á meðan birgðir endast. Þar geta viðskiptavinir keypt fuglafóðrið á hóflegu verði.
Bónus hefur um árabil lagt áherslu á að draga úr matarsóun með ýmsum hætti, svo sem með sölu á útlitsgölluðum vörum og vörur á síðasta neysludegi á afslætti. Þá er Bónus fyrsta matvöruverslunin sem hefur kolefnisjafnað rekstur verslana sinna.
Gæðabakstur hefur einnig lagt mikla áherslu á draga úr matarsóun, einkum með skilvirkri dreifingu á vörum í verslanir og hefur tekist að draga verulega úr rýrnun. Enn fremur fer stór hluti af óseldum vörum Gæðabaksturs í svínafóður. Þannig hefur Gæðabakstur lagt sitt af mörkum til þess að draga úr matarsóun og sýna samfélagslega ábyrgð í rekstri.
Þess má geta að sala á afgangs laufabrauði sem fuglafóður í valdar verslanir Bónus styður við 12 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Fuglafóðrið verður selt í eftirtöldum Bónus verslunum:
Bónus Langholti, Akureyri
Bónus Kjarnagötu, Akureyri
Bónus Smáratorgi
Bónus Skeifunni
Bónus Selfossi
Bónus Spönginni
Bónus Njarðvík
Bónus Helluhrauni, Hafnarfirði