Þessa dagana er mikið um jólakokteilboð og alls konar aðventugleði og þá er svo gaman að bjóða upp á fjölbreytt úrval af smáréttum. Svo er upplagt að vera með Pálínuboð þar sem allir koma með einn rétt á borðið. Hér er á ferðinni ótrúlega frumleg samsetning af smárétti sem á eftir að koma á óvart. Berglind okkar Hreiðarsdóttir matarbloggari hjá Gotterí og gersemar með meiru býður hér upp á beikonvafðar tígrisrækjur og mælir með að dýfa þeim í kalda hvítlaukssósu. Einn frumlegasti rétturinn þessa dagana.
Beikonvafðar tígrisrækjur
25-30 stykki
2 öskjur tígrisrækja frá Sælkerafiski (um 700 g)
13-15 stórar beikonsneiðar
70 g smjör
40 g púðursykur
½ msk. chipotle eða cajun krydd
Tilbúin hvítlaukssósa (til að bera fram með). Hitið ofninn í 200°C og klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Bræðið smjör og sykur saman í potti við vægan hita þar til sykurinn leysist upp og hrærið kryddinu þá saman við. Affrystið, skolið og þerrið rækjurnar. Skerið beikonsneiðar í tvo hluta og vefjið hverri rækju þétt inn í beikon. Raðið á bökunarplötuna og penslið með rúmlega helmingnum af smjörblöndunni. Setjið í ofninn í 15 mínútur, takið út og penslið aftur með smjörblöndu. Stillið á grill (200°C) og setjið aftur inn í ofninn í um 5 mínútur til viðbótar. Berið fram með hvítlaukssósu.
Gaman er að bera réttinn fram á bretti sem má líka skreyta með jólalegri útfærslu. Svo er þessi réttur líka tilvalinn í áramótaveisluna.