Fyrsti í aðventu er framundan núna um helgina og þá er lag að eiga ljúfar stundir með sínum uppáhalds og undirbúa jólahátíðina í rólegu afslöppuðu umhverfi. Í súkkulaðigerðinni Omnom eru allir komnir hátíðarskap og byrjað að telja niður í jólin. Súkkulaði ilmurinn kemur með bragðið af jólnum og þar sem kólnað hefur í veðri er ekkert betra en að fá sér heitt súkkulaði til að ylja sér við.
Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður og Hanna Eiríksdóttir markaðsstjóri hjá Omnom eru komin í jólagírinn og gefa hér lesendum matarvefs DV.is hugmyndir af því sem hægt er að gera í aðventunni og undirbúa komu jólanna.
Heitt súkkulaði að hætti Omnom
„Aðventan er einstakur tími í okkar huga. Ef það er eitt sem er algjört möst á aðventunni þá er það gott heitt súkkulaði. Hér fyrir neðan er uppáhalds uppskriftin okkar,“ segir Kjartans og veit fátt betra en að fá sér heitt súkkulaði og ylja sér á köldum vetrardögum.
Omnom heitt súkkulaði
250 g mjólk að eigin vali
30 g súkkulaði, við mælum með Tanzanía 70% (Hálf súkkulaðiplata)
Hitið mjólkina varlega að suðu. Saxið súkkulaðið fínt og setjið í blender skál. Hellið heitri mjólk yfir og leyfið að standa í 20 sekúndur. Blandið saman í blender í 10 sekúndur. Einnig er hægt að búa til súkkulaðið í potti. Berið fram með þeyttum rjóma og rífið súkkulaði yfir eftir smekk.
Sítrusávextir koma með jólin
„Við erum búin að vera smá heltekin af appelsínukrönsum, þeir koma ekkert smá vel út, hvort sem á borði eða í glugga,” segir Hanna Eiríksdóttir, markaðsstjóri Omnom.
Hér eru einfaldar leiðbeiningar svo að þú getir búið til þinn eigin appelsínu/sítruskrans – Appelsínukrans
Það sem þú þarft í kransagerðina:
Kransahring, vír, skæri, þurrkaða sítrusávexti og greni eða greinar eftir smekk ásamt öðru skrauti sem þig langar að skreyta með.