„Lauga-Ás braut blað í íslensku veitingastaðaflórunni með því að bjóða uppá og halda að fólki sjávarréttum. Á þeim tíma þótti það sérdeilis sturluð hugmynd að fara út að borða til að gera sér dagamun og éta fisk!“ segir sagnfræðingurinn Stefán Pálsson um hinn rómaða og gamalgróna veitingastað, Lauga-Ás, sem lokar fyrir fullt og allt fyrir áramót eftir 43 ára starfsemi.
Egill Helgason fjölmiðlamaður gerir þessi tímamót einnig að umtalsefni og rifjar upp skrif Jónasar heitins Kristjánssonar, ritstjóra og matgæðings, sem gaf staðnum bestu meðmæli. Egill skrifar:
„Veitingastaðurinn Laugaás er að loka dyrum sínum í hinsta sinn. Það eru kannski ekki margir sem muna hvílík bylting það var þegar Laugaás og Hornið opnuðu árið 1979. Jónas Kristjánsson ritstjóri lýsir þessu vel í grein sem hann skrifaði í febrúar 1980. Það voru annað hvort fín veitingahús, oft á hótelum, eða búllur. Þetta rann svo saman við svokallaða léttvínsbyltingu. Vegna breytinga á lögum eða reglugerðu gátu Íslendingar allt í einu farið að drekka léttvín nokkuð óhindrað á veitingastöðum – áður hafði þungi vínsölunnar farið í að beina fólki að sterkum vínum. Mottóið var eiginlega: Drekkum sjaldnar og mikið, fremur en drekkum oftar og lítið. Hornið var með ítalskan mat en Laugaás gerði mikið út á fiskrétti – þetta var þegar Íslendingar voru rétt að læra að elda fisk á sómasamlegan hátt, mauka hann ekki og ofsjóða. Þetta sagði Jónas og svona upplifði maður það.“
Fjallað var um málið á Útvarpi Sögu í gær og var rætt við Ragnar Guðmundsson, matreiðslumann og eiganda staðarins. „Ragnar sem staðið hefur við pottana í Laugaási undanfarin 43 ár og matreitt þá dýrindis rétti sem staðurinn er rómaður fyrir segir að allt hafi sinn tíma og nú sé rétti tíminn til þess að láta staðar numið og því verður staðnum formlega lokað 24.desember sem fyrr segir. Ragnar lumar þó á rúsínu í pylsuendanum og segir að það verði svolítið húullumhæ að hætti Laugaásmanna í janúar en það verði kynnt síðar,“ segir í netfrétt Sögu.
Ennfremur kemur fram að Ragnar segist vera sáttur við endalokin eftir öll þessi ár í bransanum. Veisluþjónusta Lauga-Áss haldi þó áfram en veitingastaðnum verði lokað.