Berglind Guðmundsdóttir ein af okkar ástsælustu matarbloggurum er hin fjölhæfasta. Hún er móðir, hjúkrunarfræðingur, athafnakona, ástríðukokkur og eigandi síðunnar Gulur, rauður, grænn og salt og mikill lífskúnstner. Hún kann svo sannarlega að njóta lífsins og er nautnaseggur. Þessa dagana stendur hún í stórræðum ásamt annarri öflugri konu, Katrínu Petersen, þar sem þær eru að stofnsetja nýjan klúbb, Brönsklúbbinn, sem er einmitt fyrir konur sem kunna að lífa og njóta og vilja njóta með fleirum konum.
Berglind er lífsglöð og mikill gleðigjafi og má með sanni segja að hún smiti út frá sér. „Ég held það sé óhætt að segja að ég sé nautnaseggur alla leið. Ég elska að hafa það huggulegt, borða góðan mat, skála í búbblum, ferðast og hitta lifandi, skemmtilegt og gefandi fólk. Mér finnst samt mikilvægt að leggja áherslu á það að auðvitað er lífið allskonar og ekki alltaf partí. En ég geri svo sannarlega það sem ég get til að lifa lífi uppfullu af töfrum og gleði,“ segir Berglind dreymin á svipinn.
Segðu okkur aðeins frá Brönsklúbbnum, hver er sagan bak við hann og hvað þýðir að vera í Brönsklúbbnum?
„Brönsklúbburinn er staður þar sem konur koma saman og eiga góða stund. Þar fá þær hvatningu til að eflast og setja fókusinn á jákvæðu hlutina í lífinu. Í Brönsklúbbnum snýst allt um að upplifa meiri lífsgleði, sjálfsást, huga að heilsunni og að elta drauma sína. Klúbburinn gefur konum rými til að staldra við, leggja skyldur hversdagsins til hliðar og huga að sjálfum sér,“ segir Berglind og brosir.
Njóta í mat og drykk og næra andann
Brönsklúbburinn er hugarfóstur hennar Katrínar Petersen markaðsfræðings sem viðraði hugmyndina við Berglindi. „Það er óhætt að segja að ég hafi kolfallið, enda er ég algjör sökker fyrir öllu sem felur í sér að njóta í mat og drykk og næra andann í félagsskap með öðrum konum. Við ákváðum að kýla á þetta og halda fyrsta viðburðinn þann 26. nóvember sem vill svo skemmtilega til að er fyrsti í aðventu.“
Samstarf Berglindar og Katrínar hefur verið fullt af jákvæðri orku frá upphafi. „Það hefur frá upphafi verið svo falleg orka í kringum Brönsklúbbinn og samstarfið hefur virkilega gleðilegt. Við Katrín höfum verið svo samstíga í undirbúningnum og erum stoltar að sjá Brönsklúbbinn verða að veruleika,“ segir Berglind og bætir við að það sé draumur að geta komið hugmyndum sem þessum í framkvæmd. „Allt byrjar með einni hugmynd sem komið er í orð – svo veit maður aldrei hvað gerist. Þetta er hluti af því að láta drauma sína rætast, að fylgja ástríðu sinni, þora að taka áhættu og treysta ferlinu.“
„Með Brönsklúbbnum sameinum við áhugamál og ástríðu fyrir að hvetja konur til að njóta lífsins, setja sig öðru hvoru í fyrsta sæti og elta draumana. Allt á sama tíma og notið er yfir dásamlegum bröns með smá búbblur á kantinum.“
Þær eru tvær sem standa að Brönsklúbbnum og eru farnar á flug í skipulagningu fyrir það sem koma skal. „Konurnar sem standa að Brönsklúbbnum eru ég og Katrín. Við eigum það sameiginlegt að vera dálítil fiðrildi sem taka mikið af skyndiákvörðunum, þá sérstaklega ef við teljum að það auki gleðina í lífi okkar og uppfylli drauma. Ég elska skyndiákvarðanir,“ segir Berglind og hlær.
Fyrsti hittingur fyrsta í aðventu
Fyrsti hittingurinn er framundan og er svo áætlað að vera með reglulega hittinga, viðburði tengda klúbbnum? „Brönsklúbburinn er viðburðarröð þar sem hver viðburður er með ákveðið þema. Markmiðið er að vera með nokkra viðburði á ári. Í Brönsklúbbnum fáum við flotta aðila til að halda fyrirlestra sem hreyfa við okkur og okkar konum, söngatriði eða önnur skemmtiatriði sem gleðja og góðan bröns og búbblur.“
Fyrstu viðburður Brönsklúbbsins verður haldinn í glæsilegum sal Gamla bíó laugardaginn 26. nóvember og ber hann yfirskriftina, „Látum drauma okkar rætast“. Brönsinn samanstendur af glæsilegu brönshlaðborði með jólaívafi að hætti LÚX veitinga, peppandi fyrirlestrum, búbblum og söngstuði með okkar stórkostlegu Guðrúnu Árnýju. Á þessum fyrsta hittingi Brönsklúbbsins er ég ein af fyrirlesurum en ég mun ég fjalla um mína vegferð og þessi fyrstu skref í átt að einhverju stórfenglegu. Birna Dröfn Birgisdóttir mun tala um hvernig við getum aukið sköpunargleðina til þess að eiga auðveldara með að leysa vandamál, láta drauma okkar rætast og fer yfir af hverju það skiptir miklu máli að dreyma stórt. Birna Dröfn hefur þjálfað hundruð einstaklinga og fyrirtæki í sköpunargleði, hefur rannsakað sköpunargleði í doktorsnámi sínu og er meðstofnandi Bulby sem er hugbúnaður sem byggir á rannsökuðum aðferðum til að efla sköpunargleðina.“
Listinn er ekki tæmdur af þeim sem koma fram. Einnig mun María Heba Þorkelsdóttir flytja erindi en hún er landsmönnum vel kunn, hún er leikkona og tvöfaldur Edduverðlaunahafi, flugfreyja, bókmenntafræðingur og kennari. „Hún mun tala um líf sitt og list, gildið í því að elta draumana, mikilvægi sjálfsmildar og þess að treysta innsæi sínu. María Heba ræðir innri gagnrýnandann sem er bæði óvæginn og óþolandi, hún trúir á flæðið sem lífið færir okkur en leggur um leið áherslu á að ögra þægindahringnum hæfilega og reglulega. Maríu Hebu eru eiginleikarnir þrautseigja og samlíðan sérstaklega hugleiknir og ræðir gleðina og virðið sem liggur í góðu samstarfi fólks á milli.“
Opinn öllum sem vilja upplifa töfra
Berglind segir að allir séu velkomnir í Brönsklúbbinn. „Brönsklúbburinn er fyrir allar konur sem eru opnar fyrir því að upplifa töfrandi og skemmtilega stund með öðrum konum. Í klúbbnum gefst konum rými til að staldra við, leggja skyldur hversdagsins til hliðar og setja sjálfar sig í fyrsta sæti.“
Okkur Katrínu er umhugað að konur sem langar að koma mæti, jafnvel þó þær komi einar. Við vitum að mörgum konum finnst erfiðara að eignast nýjar vini eftir því sem þær eldast, en þetta er einmitt vettvangurinn til að kynnast nýjum konum. Áherslan er á að taka hvor annarri fagnandi. Saman erum við sterkari,“ segir Berglind að lokum full eftirvæntingar fyrir fyrsta viðburð Brönsklúbbsins.
Vert er að minna á að fyrsti viðburðurinn verður haldinn þann 26. nóvember sem vill svo skemmtilega til að er fyrsti í aðventu. Það er fátt dásamlegra en að byrja aðventuna á bröns í góðum félagsskap og taka svo rölt um miðbæinn. Aðventan gæti ekki byrjað betur.
Hægt er að kaupa miða á tix.is á viðburðinn.
Brönsklúbburinn er kominn með Instagramreikninginn @brönsklúbburinn og er á Facebook.