Helgarnar eru til þess fallnar að gera sér dagamun og útbúa ljúffengan dögurð sem gleður með auga og munn. Fátt er betra en lokkandi ilmur úr eldhúsinu í helgarfríinu og stúttfullt borð af kræsingum til að njóta með sínum bestu. Hér er á ferðinni skotheld uppskrift af lummum sem tekur örskamma stund að baka og galdurinn er að baka þær í litlum stærðum eins og blinis. Það er svo gaman að baka þær í svona litlum stærðum og leyfa sér að hafa fjölbreytni í því sem sett er á þær. Þegar litlar sætar lummur eru bornar fram er miklu auðveldara að fá sér fleiri og prófa alls konar góðgæti ofan á.
Ekta íslenskar lummur
2 bollar hveiti
2 bollar mjólk (má líka vera kókosmjólk eða möndlumjólk)
2 stk. egg
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar
¼ tsk. salt
Ólífuolía eða smjör á pönnuna fyrir baksturinn
Byrjið á því að blanda saman þurrefnum hveiti, lyftidufti og salti. Bætið síðan saman við eggjum, vanilludropum og mjólkinni smátt og smátt saman við. Hrærið þar til deigið verður kekkjalaust. Deigið á að vera fislétt og með fallegri áferð en varist að hræra of mikið svo lummurnar verði ekki seigar. Hitið pönnukökupönnu á hellu á góðum hita fyrir bakstur. Setjið deigið á pönnukökupönnuna með lítilli ausu og miðið við að geta bakað fjóra lummur í einu. Það er fullkomin stærð fyrir þessar lummur. Berið lummurnar fram með öllu því sem hugurinn girnist, ferskum berjum og ávöxtum, sírópi, bræddu súkkulaði, nutella eða sykurlausri súkkulaðismyrju hvaðeina sem ykkur þykir gott að setja á lummur og njóta.