„Ég hef alltaf haft áhuga á íþróttum og heilsu þótt ég hafi ekki sinnt henni alla tíð. Ég er uppalin á Ólafsfirði og ávallt mjög iðin, en skíðaganga og fótbolti voru mínar helstu íþróttagreinar. Ég byrjaði að þjálfa og hjálpa öðrum að bæta heilsuna fyrir 22 árum og er hvergi nærri hætt. Í dag er ég Iron Man og Ultra runner og elska að setja mér krefjandi markmið.“
Margt hefur áhrif á heilsu okkar og að mati Telmu er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga. „Sofa vel, hlakka til að fara í hreyfingu og borða mat sem okkur líður vel af og finnst bragðgóður. Vera í góðu sambandi við fjölskyldu og vini, eiga sér áhugamál. Við verðum að búa til rútínu og hefðir og megum alls ekki troða okkur inn í ramma sem hentar öðrum. Hlustum á eigin þarfir. Góð heilsa er á eigin ábyrgð og ferlið byrjar og endar hjá okkur sjálfum. Kunnum okkur hóf og berum virðingu fyrir líkama okkar og heilsu, það er heljarinnar vinna að byggja hana upp aftur ef hún hrynur,“ segir Telma og það þekkir hún á eigin skinni. „Við þurfum ekki að vera í neinu ákveðnu formi til að byrja, það geta allir gert eitthvað.“