Alþjóðasamtök bakara og kökugerðarmanna, UIBC – International Union of Bakers and Confectioners, halda heimsþing sitt á Íslandi og er um að ræða stærsta viðburð sem haldinn hefur verið í bakarastéttinni á Íslandi. Landssamband bakarameistara er þátttakandi í heimsþinginu.
Hluti af heimsþinginu auk fundarhalda verða heimsóknir í íslensk bakarí og fagskólann í Kópavogi. Á morgun laugardaginn 10. september verður efnt til galadinners á Grand Hótel þar sem heimsins bestu fagmenn verða heiðraðir. Tilkynnt verður um val á bakara ársins (UIBC World Baker of the Year 2022) og kökugerðarmanni ársins (UIBC World Confectioner of the Year 2022) sem eru æðstu viðurkenningar sem bökurum og kökugerðarmönnum getur hlotnast í heiminum. Verðlaunaafhendingin fer fram kl. 21.00 á Grand Hótel.
Innan alþjóðasamtakanna eru 300.000 bakarí og kökugerðir í 5 heimsálfum. Samtökin voru stofnuð 1931 í Búdapest í Ungverjalandi. Samtökin standa að fjölmörgum heimsmeistaramótum líkt og heimsmeistaramóti ungra bakara, heimsmeistaramóti ungra konditora, heimsmeistaramóti bakarameistara og heimsmeistaramóti konditormeistara. Auk þess veita samtökin framúrskarandi fagfólki viðurkenningar.