Gabríel Kristinn Bjarnason matreiðslumaður, landsliðskokkur og ungkokkur Norðurlandanna á heiðurinn af fyrsta helgarmatseðlinum í ágústmánuði sem á vel við síðla sumars. Gabríel Kristinn kom, sá og sigraði í keppninni Besti ungkokkur Norðurlandanna sem haldin var í mars í Danmörku. vann jafnframt bronsið í keppninni um Kokk ársins á Íslandi sem haldin var í vor.
Gabríel stendur vaktina á veitingastaðnum Héðinn Kitchen & Bar sem er glæsilegur veitingastaður í 101 Reykjavík þar sem hann leyfir sköpunarhæfileikum sínum að njóta sín í matargerðinni. Gabríel veit fátt skemmtilegra að grilla og útbúa ljúffenga rétti og töfra fram föngulega sælkerarétti sem gleðja bæði bragðlauka og augu.
„Núna er ég að koma aftur til vinnu eftir gott og vel velkomið sumarfrí og er að komast aftur í rútínu á Héðinn Kitchen & Bar þar sem er orðið brjálað að gera og stefnum við að hafa mikið af skemmtilegum kvöldum út árið. Svo er kokkalandsliðið að fara aftur á fullt eftir frí þar sem við stefnum á að fara á heimsmeistaramótið í Lúxemburg í nóvember, þannig það eru stífar æfingar framundan hjá mér þangað til þá,“ segir Gabríel.
Gabríel setti saman fyrir matarvef DV sælkera helgarmatseðil sem á vel við síðla sumars. „Ég valdi þennan einfalda 3ja rétta matseðil vegna þess að þetta eru nokkrar af mínum uppáhalds uppskriftum sem ætti að vera þægilegt að gera heima hvort það sé grillað úti í sólinni eða bara eldað inni í rigningunni.“
Hér fáið þið nokkrar uppskriftir af uppáhalds réttunum hans Gabríels. Þetta er gómsætur forréttur, aðalréttur með girnilegu meðlæti og ásamt dýrðlegum eftirrétti sem á eftir að slá í gegn. Þessar uppskriftir eru allar settar saman af mikill ástríðu og natni.
„Fyrst er ég með einfalt heimagert ferskosta krem með steinselju og sýrðum rjóma borið fram á grilluðu brauði, ólífuolíu og tómatsalati. Það er skemmtilegt sem forréttur eða bara sem ljúffengur réttur til að fá sér í hádeginu.“
Ferskosta krem
Ostur
2 l mjólk
600 g súrmjólk
50 g ferskur sítrónusafi
Aðferð:
Byrjið á því að setja allt saman í pott og leyfið að malla á miðlungs hita þangað ostur byrjar að myndast á yfirborðinu. Þá er gott er að skafa í botninn með sleikju inn á milli svo brenni ekki í botninn. Þegar þykkur ostur er kominn, þá megið þið sigta frá með sigti og klút til að fjarlæga alla mysuna. Þegar öll mysan er kominn frá þá sitjum við uppi með ferskost.
Ostakrem
500 g ferskostur
150 g 36% sýrður rjómi
20 g fersk steinselja
Zest af einni sítrónu
Safi úr hálfri sítrónu
Smakkið til með salti og pipar
Aðferð:
Setjið allt hráefnið saman í matvinnslu vél og blandið vel saman þangað til blandan verður silkimjúk.
Tómat salat
1 stk. askja kirsuberjatómatar
1 stk. saxaður skalotlaukur
30 g saxaður graslaukur
Góð ólífuolía
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Byrjið á því að skera tómatana í 4 bita og blandið saman við rest í skál. Gott er að rispa zest af sítrónu yfir í endann.
„Í aðalrétt er ég með pönnusteikta stórlúðu á beini, sem er hægt að fá helstu fiskbúðum
landsins, burre blanc og bok choi og brokkólin salat með pikkluðum rifsberjum, noisett
heslihnetum og pestó.“
Lúða
1 steik af stór lúðu á beini
100 g smjör
2 hvítlauksgeirar
Ferskt timian eftir smekk
Aðferð:
Byrjið á því að hita pönnu þangað til hún fer að rjúka, þurfið að hafa hana vel heita til að fá
góða brúningu á steikina, setjið er ólífuolíu á pönnuna og leggið fiskinn á. Steikið 2-4 mínútur á hverri hlið, fer svolítið eftir pönnu. Síðan er steikinni snúið við, bætið þá við smjöri, hvítlauk og timian og gott er að maska fiskinn vel með skeið til að fá fullkomna brúningu. Setjið steikina í bakarofn í rúmar 5 mínútur á 180°C hita eða þangað til hitastigið í miðjunni er komið upp í 53°C, takið þá steikina út og leyfið að hvíla í minnsta kosti 5 mínútur.
Burre blanc
50 g hvítvín
50 g hvítvíns edik
2 msk. saxaður skalotlaukur
50 g g rjómi
250 g kalt smjör (skorið í kubba)
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Byrjið á að setja hvítvín og hvítvíns edik með lauk í pott og leyfið að sjóða niður í 5 mínútur. Bætið síðan við rjóma og sjóðið í aðrar 5 mínútur. Síðan er smjöri bætt við og einum og einum kubb pískað saman við í einu. Svo þegar sósan er komin saman er lauknum sigtað frá og kryddið til með salt og pipar.
Steinselju og sólkjarnafræ pestó
60 g steinselja með stilk
50 g bökuð sólkjarnafræ
50 g Feykir ostur rifinn (eða parmesan)
2 stk. hvítlauksgeirar
Safi úr hálfri sítrónu
2 dl repjuolía
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Setjið allt hráefnið saman í matvinnslu vél og blandið vel saman.
Pikkluð rifsber
1 box rifsber ( búið af taka af stilk)
50 g hvítvíns edik
50 g sykur
50 g vatn
2 g salt
Aðferð:
Setjið saman hvítvín, sykur og vatn í pott og sjóðið saman þangað til sykurinn bráðnar. Síðan blöndunni hellt yfir rifsberin.
Noisett heslihnetur
500 g smjör
200 g bakaðar heslihnetur
Aðferð:
Byrjið á því að hita bakarofninn í 160°C. Síðan eru heslihneturnar bakaðar í ofninum þangað til heslihneturnar eru orðnar gullinbrúnar, svo er gott að saxa þær í þykka bita
áður en er sett í brúnaða smjörið. Setjið smjör í pott og leyfið að bull sjóða þangað til að smjörið er orðið brúnt með hnetukeim, þá er smjörið tekið af hitanum og leyfið því að kólna aðeins áður en þið bætið hnetunum við.
Heitt bok choi og brokkolíni salat
1 búnt af brokkólíni
Boc choi eftir smekk
Aðferð:
Hitið pönnu með ólífuolíu. Bætið síðan við boc choi og brokkolíni steikið á pönnu þangað til eldað í gegn. Síðan er gott að setja pestó á botninn á disknum sem á að bera salatið fram á, síðan boc choi og brokkolínið ofan á og dressað með rifsberjum og noisett heslihnetum.
„Í eftirrétt er ég með hvítsúkkulaði brownie sem mér finnst ekkert eðlilega góð og nota mikið í veislum og á Héðinn Kitchen & Bar, fólk er mikið að spyrja um uppskriftina og ákvað ég loksins að deila þessari uppskrift með ykkur. Í henni er ég með fersk ber og þeyttan 36% sýrðan rjóma, það hljómar kannski furðulega að hafa sýrðan rjóma ofan á köku en þetta smell passar á móti allri sætunni í kökunni.“
Hvítsúkkulaði brownie
150 g smjör
210 g hvítt súkkulaði
200 g sykur
40 g glúkósi (hægt er að nota hunang í staðinn)
2 g salt
100 g rjómi
3 stk. egg
90 g hveiti
Aðferð:
Byrjið á því að bræða smjör og súkkulaði saman í pott. Á meðan setjið saman sykur, glúkósa, salt og rjóma í annan pott og bræðið saman. Þegar blöndurnar eru bráðnar í báðum pottum eru þær settar saman í skál. Bætið síðan hveiti saman við og hrærið saman með písk, þegar þið blandið hveitinu er vel blandað við þá er setjið þið eitt egg í einu saman við þangað til að allt hráefnið er komið saman. Að lokum blöndunni hellt í eldfast mót klædd með smjörpappír í botninn og bakað í bakarofni við 140°C hita í 25 mínútur.
Þeyttur sýrður rjómi
250 g 36% sýrður rjómi
Aðferð:
Þeytið sýrða rjómann í skál þangað til að hann verður silkimjúkur og þykkur.
Mjög mikilvægt að þið séuð með 36% sýrðan rjóma því annars þeyttist hann ekki.
Njótið vel og góða helgi.