Skyrkökur eru eitthvað sem erfitt er að standast og þær eru svo dásamlegar til að njóta á sumrin. Hér erum við komin með uppskrift af sumarlegri skyrtertu með glás af ferskum berjum úr smiðju Berlindar Hreiðars köku- og matarbloggara með meiru á Gotterí og gersemar sem allir ættu að ráða við. Margir treysta sér ekki til að gera skyrtertu af því þeir eru hræddir um að kunna ekki á matarlímið sem er í flestum uppskriftum af skyrkökum.
„Ég þori varla að viðurkenna það en ég hef aldrei áður gert skyrköku með matarlími sem hægt er að skera í sneiðar, alltaf bara í stóra skál eða lítil glös. Ég hef hins vegar gert ótal ostakökur á þennan máta svo það var sannarlega kominn tími til að prófa. Látið matarlímið alls ekki hræða ykkur, það er ekkert mál að nota það, bara fylgja uppskriftinni,“ segir Berglind sem var hin ánægðasta með sína skyrtertu.
Sumarleg skyrterta
Botn
260 g hafrakex
100 g brætt smjör
Setjið bökunarpappír í botninn á um 20-22 cm smelluformi. Myljið hafrakex í blandara þar til það er orðið duftkennt. Blandið bræddu smjöri saman við og þjappið í botninn á smelluforminu, setjið í frystinn á meðan þið útbúið fyllinguna.
Fylling
350 ml rjómi
2 msk. flórsykur
2 tsk. vanillusykur
500 g KEA skyr með jarðarberjum og bláberjum
5 matarlímsblöð
50 ml mjólk
Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur. Hitið mjólkina í potti, takið matarlímsblöðin upp úr vatninu, eitt í einu og vindið út í heita mjólkina. Hrærið vel á milli hvers og þegar blöðin eru öll uppleyst má hella blöndunni í skál og leyfa hitanum að rjúka úr á meðan þið undirbúið annað. Þeytið rjóma, flórsykur og vanillusykur saman. Vefjið skyrinu saman við rjómablönduna og hellið næst matarlímsblöndunni í mjórri bunu saman við og blandið vel saman. Hellið yfir kexbotninn í smelluforminu og setjið í kæli í að minnsta kosti 5 klukkustundir eða yfir nótt. Skerið síðan meðfram hringnum á forminu að innan áður en þið losið hliðarnar frá og flytjið kökuna yfir á fallegan disk.
Skreyting
Ber eftir eigin ósk og smekk
Saxað suðusúkkulaði
Berið hana svo fram fagurlega skreytta svo hún fangi augað og loks munn.